Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:34:43 (3662)

2001-01-16 16:34:43# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég tek til máls til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu sem fram er borin af hv. þm. Katrínu Fjeldsted og öðrum flutningsmönnum sem tilgreindir hafa verið. Ég vil sérstaklega taka fram að ég hef í nokkrum tilvikum kynnst því hversu mikilvægt getur verið að frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála fái tækifæri sem fyrst í meðferð mála og umfjöllun til að láta sjónarmið sín í ljósi. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á því að verulegur munur, herra forseti, er á því hvernig við Íslendingar tökumst á við slík viðfangsefni, hvernig við ræðum álitaefni á sviði umhverfismála, verndunar eða nýtingar, og hins vegar hvernig grannþjóðir okkar sumar takast á við þá umræðu.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að þoka okkur áfram úr ákveðnu fari sem ég tel ekki vera jákvætt við okkar aðferðir við að leysa úr þeim álitaefnum. Það er alls ekki alltaf um að ræða mikilvægan eða þungan ágreining en álitaefni eru þetta vissulega allt saman, hversu langt við göngum í verndaraðgerðum, í mótun reglna eða laga eða í nýtingu auðlinda í hinni lifandi náttúru.

Í fyrsta lagi tel ég mikilvægt að við höldum þannig á þessum málum öllum að það komi skýrt fram að hér á Íslandi taka bæði stjórnvöld og fyrirtæki sem hyggjast nýta náttúrulegar auðlindir tillit til annarra sjónarmiða og taki sérstaklega tillit til óska um varfærni í framgöngu því að þær auðlindir eru eitt það mikilvægasta sem við Íslendingar getum búið að, bæði til skammrar og langrar framtíðar. Það hefur lengi verið skoðun mín að við eigum enn meira undir heilbrigði náttúrunnar og umhverfisins en margar grannþjóðir okkar því að sumar þeirrar lifa að mestu á dauðum auðlindum. Við lifum enn og við ætlum um langa framtíða að lifa af lifandi auðlindum bæði í sjó og á landi og ekki síst fersku vatni.

En þá skiptir mestu máli að við getum tekist á við álitaefni á þann hátt að bæði þeir sem vilja ganga fram og nýta og hinir sem vilja vara við nýtingu geti rætt sín álitaefni frá upphafi mála. Þess vegna tel ég mikilvægt, herra forseti, að við sköpum þannig leikreglur að öllum þessum aðilum séu ljós tækifæri til þess að koma að málum í upphafi.

Ég held að rétt sé að geta þess, herra forseti, að ég þykist hafa greint breytingar á sjónarmiðum sem ráða afstöðu stærri orkufyrirtækja, sem eru nú kannski þau stórtækustu þegar þau fara af stað í nýtingu umhverfisauðlinda. Á þessum áratug, sérstaklega síðari hluta þessa áratugar sem lauk um síðustu áramót, er alveg greinilegt að þau fyrirtæki --- eitt af þeim hefur verið nefnt hér í umræðunni, Landvirkjun --- vilja ganga hægar fram og vilja gefa fleiri tækifæri en áður til þess að þeir sem vilja viðhafa varúðarsjónarmið og gæta þess að öll þekking, hvort sem hún bendir til nýtingar eða verndar, fái að koma fram. Mér sýnist einfaldlega að þetta fyrirtæki hafi gengið hægar um gleðinnar dyr en stundum áður og það tel ég afar mikilvægt.

En ég tel enn þá mikilvægara, herra forseti, að við náum því almennt að ræðast við um hugsanleg verkefni í ljósi þess að fyrir liggi almennar leikreglur og almenn tækifæri. Þá skiptir það mjög miklu að samtök fólks sem hefur áhuga á umhverfisvernd geti komið sínum sjónarmiðum fram eftir almennum reglum og geti komið þeim fram áður en við deilum um álitaefnin í einstökum verkefnum eða framkvæmdum. Það skiptir miklu máli að þeir sem hafa uppi mjög ólík sjónarmið nái að kynnast þessum ólíku sjónarmiðum hvers annars og hafa áhrif á hvernig þau ná að taka til eða stemma stigu við hugmyndum um framkvæmdir eða hugmyndum um verndun.

Ég held satt að segja að við höfum alloft farið svolítið ógætilega í báðar þessar áttir og verð að segja að ég til að mynda tel að við gætum haft aðeins greiðari leiðir til að koma að sjónarmiðum beggja, bæði nýtingarsinna og verndunarsinna, við hugsanlega virkjun nokkurra orkuauðlinda þó að ég sé ekki að tala um vatnsföll. Það er til að mynda svo, herra forseti, vegna þess að ég segi þetta, mun auðveldara að virkja vatnsföll á Íslandi en aðra orku sem er í lifandi auðlindum náttúrunnar. Reglurnar í lögum um umhverfismál og reglurnar í lögum um nýtingu orkulinda eða auðlinda í jörðu eru einfaldlega þannig að það er auðveldast samkvæmt lögum að virkja vatnsafl. Það er miklu erfiðara og flóknari leið að fá heimildir stjórnvalda til að virkja t.d. jarðhita. Þannig eru nú einu sinni leikreglurnar og ég tel að þær séu ekki í fullu jafnvægi. Það er að vísu bara mín skoðun. En ég tel að ef þessi samtök fá greiðari leið til að fjalla um viðfangsefnin ásamt þeim sem hafa hugmyndirnar um að virkja eða framkvæma þá gætum við lagað slíkar misfellur eða ójafnvægi eftir leiðum sem allir geta unað við og verið sáttir við.