Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:44:25 (3664)

2001-01-16 16:44:25# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Þetta hafa verið fróðlegar og góðar umræður og a.m.k. tveir hv. þingmenn hafa nýtt tækifærið fyrst ráðherra er viðstaddur og beðið um upplýsingar um hvar þetta mál er statt. Mér er ljúft að lýsa því í stuttri ræðu.

Árósasamningurinn er að koma úr þýðingu í umhvrn. núna. Það er búið að vera að þýða hann á íslensku að undanförnu. Það tel ég mjög mikilvægt. Við erum að hefja vinnu núna við að skoða hvernig við getum komið honum í gagnið hér á landi. Ég get ekki upplýst um neinar tímasetningar í því sambandi, en sú vinna er að hefjast.

[16:45]

Í máli flutningsmanns kom fram að samningurinn lyti að ýmsum atriðum, t.d. um aðgang að upplýsingum, aðgang að ákvarðanatöku, málsmeðferð umhverfismála og kærur. Ljóst er að ýmislegt af þessu er í mjög góðum farvegi. Annað þarf hugsanlega að bæta. Þetta ætlum við að fara yfir í ráðuneytinu og athuga hvernig við getum uppfyllt samninginn. Hve formleg eiga t.d. samskipti umhverfissamtaka og stjórnvalda að vera? Eiga þau að vera mjög formleg, frekar formleg eða hvernig á þessu að vera háttað? Við erum að skoða það.

Ég hef átt ágæt samskipti við umhverfisverndarsamtök. Ég vil sérstaklega nefna að við styrkjum ýmis verkefni sem þau fara með. Ég get t.d. af handahófi nefnt GAP-verkefnið eða Vistvernd í verki sem Landvernd hefur með höndum. Við vorum með samráð við umhverfisverndarsamtök og fleiri samtök varðandi Kárahnjúkavirkjun. Þar kom fram ályktun frá samtökunum, sameiginleg ályktun um að fram ætti að fara arðsemismat á virkjanasvæðinu. Við áttum samstarf við þessi samtök við að koma því máli áfram og nú er verið að skoða það á vettvangi rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar, Maður -- nýting -- náttúra.

Einnig er vert að nefna samráð varðandi undirbúning á umhverfisþingi sem halda á 26. og 27. janúar en þar eiga umhverfisverndarsamtökin sameiginlegan fulltrúa í undirbúningsnefnd, Jón Helgason, formann Landverndar. Það er að mínu mati mikilvægt þing. Þar á að fara yfir stöðu umhverfismála í dag, hvernig okkur hefur miðað að undanförnu og kynna drög að stefnumörkun að sjálfbærri þróun til næstu 20 ára. Drögin verða kynnt þar en síðan munu umhverfisverndarsamtök og aðrir hafa tækifæri til að koma með ábendingar um hvernig er hægt að gera þessa stefnumörkun enn betur úr garði. Hagsmunaaðilar munu síðan fá drögin send í september næsta haust til að undirbúa það að ríkisstjórnin geti samþykkt þessa stefnumörkun fyrir sjálfbæra þróun til næstu 20 ára. Í henni verður reyndar líka innifalin fjögurra ára framkvæmdaáætlun sem verður síðan í stöðugri endurskoðun.

Ég er sammála því sem fram hefur komið, að æskilegt sé að Árósasamningurinn verði tekinn inn í stjórnkerfi okkar. Umhverfisverndarsamtök eins og Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sérstaklega hvatt til þess og þau mál eru í vissum farvegi.

Hér hefur réttilega komið fram að vægi frjálsra félagasamtaka er að aukast og verður æ mikilvægara. Það hefur vakið mig svolítið til umhugsunar upp á síðkastið hvernig þessum málum er háttað hér. Það er ljóst að þessi samtök hafa ekki mikið fjármagn og æskilegt væri að þau hefðu meira. Áðan var það gagnrýnt hvernig fjárveitingavaldið á Alþingi hefði reynt að deila þessu fjármagni með styrkjum til samtaka. Af því tilefni vil ég taka fram að í umhvrn. höfum við reynt að búa til reglur um þessa styrki til að mismuna ekki samtökum. Menn fá ákveðna rekstrarstyrki, ég man þessar reglur ekki nákvæmlega hér og nú en rekstrarstyrkir eru veittir eftir ákveðnum reglum og síðan geta menn sótt um ákveðin verkefni. Þá vegum við og metum hvert verkefni, hversu snjallt það er, til hve margra það gæti náð, hve brýnt það er o.s.frv. Við höfum komið til móts við mörg verkefni og styrkt þau.

Ljóst er að stjórnvöld veita fé til stjórnskipaðra ráða eins og Náttúruverndarráðs. Það hefur einnig verið til umfjöllunar. Mig minnir að til þess fari um 8 millj. kr. á ári, hugsanlega minna. Mig minnir að það séu um 8 millj. kr.

Ég hef velt því fyrir mér að náttúruverndarlöggjöfinni hefur verið breytt verulega. Komið hefur verið á umhverfismati vegna framkvæmda. Umhverfisverndarsamtök hafa styrkst og veita stjórnvöldum mikið aðhald, verulegt aðhald og æskilegt. Reyndar hafa þau líka hrósað stjórnvöldum. Ég fékk um daginn bréf frá Náttúruverndarsamtökum Íslands um Staðardagskrá 21. Þau fögnuðu þar fimm ára samningi okkar við Samband ísl. sveitarfélaga þar um. Mér þótti vænt um það að fá þar smáhrós frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Það var mjög gott enda um mikið framfaramál að ræða.

Vegna þessara breyttu aðstæðna hef ég hins vegar velt því fyrir mér hvort það mundi þjóna enn betur hagsmunum umhverfismála á Íslandi að fjármagninu sem fer til Náttúruverndarráðs yrði beint í annað, það færi t.d. til að efla frjáls félagasamtök, umhverfisverndarsamtök. Engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessu sambandi en við höfum falast eftir viðbrögðum vegna þessa og erum að skoða þau mál. Ég tel verulegar líkur á að það mundi styrkja umhverfismál á Íslandi að efla frjáls félagasamtök með hærri fjárframlögum. Eins og hér kom fram er vægi frjálsra félagasamtaka að aukast. Þau munu eiga auðveldara en margar aðrar einingar í samfélaginu með að nálgast almenning og upplýsa almenning. Eftir því sem þessi félög verða sterkari, þeim mun faglegri verða þau líka og það væri umhvrh., umhverfismálum hér almennt og samfélaginu sannarlega mjög í hag.