Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:59:09 (3668)

2001-01-16 16:59:09# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. þá er alveg ljóst að Jón Helgason er sameiginlegur fulltrúi allra umhverfisverndarsamtakanna. Hafi menn athugasemdir við störf viðkomandi aðila þá hljóta þeir að snúa sér til hans.

Varðandi Náttúruverndarráð þá er ljóst að grundvallaratriði hafa breyst. Á sínum tíma vorum við bara með Náttúruverndarráð. Síðan var stjórnsýslunni skipt upp og stofnuð Náttúruvernd ríkisins, ríkisstofnun sem fer með ýmsa stjórnsýslu sem hið gamla Náttúruverndarráð fór með. Í stað þess að leggja ráðið niður á þeim tíma er þessi lagabreyting var gerð þá var stofnað Náttúruverndarráð hið nýja, eins og sumir kalla það. Það er svokallað ráðgefandi ráð, á að gefa ráðherra ráð samkvæmt lögum.

[17:00]

Það er alveg ljóst að það ráðgefandi ráð hefur ekki nýst sem skyldi að mínu mati og ekki heldur að mati Árna Bragasonar, forstjóra Náttúruverndar ríkisins. Hann hefur komið með þá ábendingu að það gæti verið rétt að leggja niður Náttúruverndarráð, að það gæti orðið betra að koma þessum málum í annan farveg. Við höfum verið að skoða það í fullri alvöru þó að ekki sé búið að taka ákvarðanir. Það er því engin einkahugmynd umhvrh. að koma fram með þessar hugmyndir, alls ekki. Ég tel að menn eigi að skoða þetta í fullri alvöru og horfa til framtíðar en ekki til fortíðar.