Úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 17:39:50 (3672)

2001-01-16 17:39:50# 126. lþ. 59.10 fundur 116. mál: #A úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Suðurl., Margréti Frímannsdóttur, fyrir greinargóða ræðu þar sem hún mælir fyrir 116. máli, till. til þál. um úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum sem hún er 1. flm. að ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, Sigríði Jóhannesdóttur, Ólafi Erni Haraldssyni, Drífu Hjartardóttur, þeim sem hér stendur, Magnúsi Stefánssyni og Kjartani Ólafssyni.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. er mjög brýnt að nýta þá þekkingu sem fékkst af þeim hræðilegu náttúruhamförum sem riðu yfir Suðurland 17. og 21. júní sl. Þá kom í ljós hve magnaðir vísindamenn okkar eru, t.d. þeir sem starfa við jarðskjálftamiðstöðina á Selfossi. Mjög brýnt er að efla forvarnir á þessu svæði sem og öðrum. Mjög brýnt er að gera úttekt á öllum jarðskjálftasvæðum á landinu og það er einmitt það sem þessi tillaga felur í sér.

Ég held að í raun sé óþarft að fara yfir einstök atriði tillögunnar, það hefur 1. flm. gert með miklum ágætum, ég tek þar undir hvert orð. Í lok ræðu sinnar, herra forseti, kom þingmaðurinn inn á ákveðin atriði um skörun milli ákveðinna stofnana hvað þetta varðar. Ég get fullvissað hv. þm. um að ég hef m.a. rætt þessi mál við umhvrh. og þessi mál eru öll í athugun í því ráðuneyti. Það kom einmitt í ljós í fyrirspurnatíma á Alþingi fyrr í vetur að hæstv. umhvrh. hafði ekki fengið þessi gögn. Það minnir okkur á að þegar fulltrúar jarðskjálftamiðstöðvarinnar kynntu skýrslu sína á Hótel Sögu fyrr um veturinn sat þar dómsmrh. sem fulltrúi þeirra sem fara með almannavarnir í landinu en ekki umhvrh., þannig að í raun og veru kom þar í ljós þessi skörun en við eigum ekki að láta það á okkur fá. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur er mjög nauðsynlegt að þetta sé sem allra mest á einni hendi og þar er umhvrn. það ráðuneyti sem á í raun og veru að stjórna þessu. En ég fagna þessari tillögu og vonast til þess að hún fái brautargengi á Alþingi.