Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 17:56:58 (3675)

2001-01-16 17:56:58# 126. lþ. 59.9 fundur 101. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða mikið um þetta mál. Ég fagna því hins vegar að það hafi verið flutt hér og er full ástæða til. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur gert grein fyrir þróuninni eftir að endurgreiðslum var breytt á sínum tíma. Auðvitað vita allir sem fylgjast með að verulega mikið er um svarta atvinnustarfsemi og við núgildandi reglur er líklegt að hún aukist enn.

Varðandi viðhald íbúðarhúsnæðis, þ.e. iðnaðarmannavinnu og annað slíkt sem menn hafa kostnað af, þá eru mál þannig vaxin, svo ég taki dæmi, að ef húseigandi hefur látið vinna verkefni upp á 125 þús. kr. við húsnæði sitt, þá fara af því 25 þús. kr. í virðisaukaskatt og kannski 60 þús. kr. í launalið þeirra sem þarna hafa unnið. Ef launaliðurinn er af þessari stærðargráðu ætti viðkomandi að greiða u.þ.b. 25 þús. kr. til ríkisins í skatt af þeirri vinnu. Viðkomandi aðilar bjóða iðulega þeim sem lætur framkvæma verkið afslátt af verkinu verði ekki gerður reikningur. Þarna eru á ferðinni háar upphæðir, u.þ.b. 50 þús. kr. af verki sem að stofni kostar 100 þús. kr. en virðisaukaskatturinn lyftir því upp í 125 þús. kr.

Af þessum sökum hefur starfsemin horfið undir yfirborðið. Þetta eru ástæðurnar fyrir þeim tölum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nefndi áðan og birst hafa eftir að þessu var breytt. Ég tel augljóst að gera þurfi þessa breytingu og reyna að ná til baka því sem áður var uppi á borðinu og greitt var af til ríkisins.

[18:00]

Til viðbótar má benda á að hagsmunir þeirra sem þarna er um rætt eru fleiri en þeir sem ég hef nefnt. Sá aðili sem ekki gefur upp þau verkefni sem hann vinnur með þessum hætti en rekur fyrirtæki getur sett áfram í bókhald fyrirtækis síns með þann kostnað sem tilheyrði því verkefni sem um var að ræða og þannig séð til þess að fyrirtækið hans þurfi ekki að borga neinn skatt heldur. Hann er sem sagt ekki bara að spara sér skattinn af vinnunni sjálfri heldur líka að spara sér skatta með því að nýta sér kostnaðinn, þá sparar hann sér líka skatta af öðrum verkefnum.

Það er mjög mikið í húfi að koma þessum hlutum í skynsamlegra horf heldur en þeir er núna og ég hvet til þess að þetta mál verði meðhöndlað sem allra fyrst í hv. nefnd og séð til þess að það gangi fram hér í vetur.