Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 10:44:41 (3680)

2001-01-17 10:44:41# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[10:44]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Af því að hann er nú fullnuma í fundarstjórn undir góðri leiðsögn hv. þm. Sverris Hermannssonar, þá veit hann að það munar um 10 sæti.

Herra forseti. Það er hlutverk hæstv. forseta að gæta virðingar þingsins. Hér liggur fyrir að við ætlum að fara að ræða frv. sem í besta falli ríkir ákaflega sterk óvissa um hvort stenst stjórnarskrá lýðveldisins. Það er alveg ljóst að frv. er ekki þinghæft að okkar mati vegna þess að með því er verið að fara á svig við nýfallinn úrskurð Hæstaréttar. Það liggur fyrir að Hæstiréttur hefur úrskurðað að það er í andstöðu við stjórnarskrána að skerða tekjutryggingu öryrkja með tilteknum hætti sem er ...

(Forseti (HBl): Það er fundarstjórn forseta sem er til umræðu. Á hinn bóginn hafði hv. þm. tækifæri til að tala um störf þingsins í upphafi fundar. Fyrir því er þinghefð orðin að eftir því sé farið.)

Ég er einmitt að ræða um fundarstjórn forseta sem mér finnst að sé verulega áfátt vegna þess að ég er að halda því fram, herra forseti, að það sé hlutverk hins virðulega forsetaembættis að gæta virðingar Alþingis. Ég held því fram að forsetinn sé ekki að sinna starfi sínu sem skyldi ef hann leyfir að hér sé verið að taka á daskrá frv. sem gengur á svig við stjórnarskrána. Ég gæti fært margvísleg rök að því, herra forseti, hvers vegna svo er en ef hæstv. forseti telur að ég sé að fara út fyrir svið mitt þar sem mér er heimilt, þá ætla ég ekki að gera það en ég tel að hér sé verið að fá Alþingi til að stimpla brot á stjórnarskránni. Það sýnir framkomu og viðhorf ríkisvaldsins, viðhorf framkvæmdarvaldsins til löggjafarsamkundunnar að búið er að gefa út auglýsingu um það í fjölmiðlum að það eigi að fara eftir lögum sem er ekki einu sinni byrjað að ræða hérna, herra forseti. Það er óvirðing við Alþingi. Hæstv. forseti ætti að sjá sóma Alþingis og síns í því að koma í veg fyrir að slíkt gerist.

Ég mótmæli þessu, herra forseti. Það er skylda okkar sem erum varðgæslumenn stjórnarskrárinnar að gæta þess að hún verði ekki brotin og ég tel að verið sé að brjóta stjórnarskrána með því að taka þetta frv. til umræðu. Ég tel að það sé ekki þingtækt og ég skora á hæstv. forseta að gefa betri svör en þau snautlegu sem hann veitti hér.

(Forseti (HBl): Úrskurður forseta er ekki til umræðu.)