Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 10:55:33 (3686)

2001-01-17 10:55:33# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[10:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar til að fara að dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 19. desember sl.

Það er viðurkennt að Tryggingastofnun ríkisins hafi verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með þeim hætti sem gert hefur verið um langt árabil þegar maki hans er ekki lífeyrisþegi. Einnig var viðurkennt að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap eins og var gert á grundvelli 5. mgr. 17. gr. laganna sem sett voru í desember 1998.

Virðulegi forseti. Ég held að niðurstaða Hæstaréttar hafi komið flestum þeim á óvart sem hafa haft fyrir því að setja sig inn í málið. (Gripið fram í: Það er rangt.) Þegar við settum lögin sem drógu úr makatengingum og skýrðum ákvæði þeirra samkvæmt ábendingum umboðsmanns Alþingis kom engum þeim lögfræðingi sem fjallaði um málið til hugar að hann væri að leggja blessun sína yfir verk sem æðsti dómstóll landsins mundi innan nokkurra missira dæma ómerk á grundvelli sjálfrar stjórnarskrárinnar. (Gripið fram í: Það er rangt.)

Ég bið þá sem þykjast hafa séð niðurstöðu Hæstaréttar fyrir að muna að þessi lagasetning var gerð samkvæmt leiðsögn þess umboðsmanns Alþingis sem hefur nú það hlutverk að dæma um mannréttindi í Evrópu. Þegar niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir lýsti ég yfir því að eftir dómnum yrði farið. Ég sagðist jafnframt mundu taka málið upp í ríkisstjórn af þeirri einföldu ástæðu að þegar Hæstiréttur dæmir gjörning löggjafarþingsins ómerkan á grundvelli stjórnarskrárinnar þá er það meiri háttar mál sem varðar alla ríkisstjórnina.

Að minni tillögu var svo skipaður starfshópur til að gera tillögu um hvernig bregðast mætti við dómnum og semja drög að frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar sem lögfesta skyldi svo fljótt sem verða mætti. Þess vegna erum við hér nú en ekki 23. janúar eins og við gerðum ráð fyrir þegar við fórum í jólaleyfi.

Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til forsrh. 7. janúar og er skýrslan birt sem fylgiskjal III með frv.

Virðulegi forseti. Í frv. er gert ráð fyrir sérreglu í 17. gr. laga um almannatryggingar sem ætlað er að tryggja að öryrki hafi sjálfur ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka. Í reglunni felst að samanlögð eigin tekjuöflun örorkulífeyrisþega og tekjutrygging hans geta aldrei, þrátt fyrir sameiginlegt frítekjumark hjóna, numið lægri fjárhæð en 300 þús. kr. á ári eða 25 þús. kr. á mánuði. Af þessu leiðir að enginn örorkulífeyrisþegi fær vegna tekna maka lægri lífeyri en 43.424 kr. á mánuði þegar lágmark tekjutryggingar að viðbættum eigin tekjum hefur verið lagt við grunnlífeyri samkvæmt 12. gr. laganna.

Gert er ráð fyrir að 2/3 tekna öryrkjans hafi áhrif á fjárhæð sérreglunnar. Þannig verður þetta til þess að auka tekjur örorkulífeyrisþega sem er með allt að 450 þús. kr. í árstekjur í tilvikum þar sem tekjutrygging öryrkja er skert samkvæmt gildandi reglum vegna tekna maka. Með þessu er m.a. komið til móts við þau meginsjónarmið sem uppi hafa verið á undanförnum árum í almannatryggingakerfinu að hvetja öryrkja til að vera virka þátttakendur í samfélaginu. Gert er ráð fyrir að lögin gildi frá 1. febr. 2001.

[11:00]

Þetta var um framtíðina en snúum okkur nú að greiðslum aftur í tímann. Í ákvæðum til bráðabirgða er fjallað um þær greiðslufjárhæðir sem miða skal við greiðslu vaxta, framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins og hvernig skuli fara með greiðslurnar skattalega. Ákvæði til bráðabirgða I í frv. gerir ráð fyrir að fyrir tímabilið 1. jan. 1997 til 31. des. 1998 skuli greiða tekjutryggingu sem reiknast eftir þeim lagaákvæðum sem voru í gildi þá en án skerðinga sem fólust í ákvæðum reglugerðar nr. 485/1995. Þá er gert ráð fyrir að fyrir tímabilið 1. jan. 1999 til 31. jan. 2001 skuli greiða tekjutryggingu samkvæmt sérreglunni í 1. gr. frv. Frá tekjutryggingu reiknaðri með þessum hætti skuli draga þær greiðslur tekjutryggingar sem örorkulífeyrisþegi hefur þegar fengið.

Ákvæði II til bráðabirgða í frv. gerir ráð fyrir að útreikningur tekjutryggingar fyrir þessi tímabil skuli gerður eftir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem hafa verið í gildi á hverju tímabili fyrir sig. Einnig skuli greiðslurnar bera 5,5% ársvexti frá þeim degi sem lífeyrisþeginn gat fyrst átt rétt á að fá greiðslur viðkomandi tímabil samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar um það efni. Gert er ráð fyrir að greiða vexti þó ekki hafi legið fyrir umsókn um tekjutryggingu frá lífeyrisþega.

Ákvæði III til bráðabirgða í frv. leggur þá skyldu á Tryggingastofnun ríkisins að hún hafi frumkvæði að greiðslum aftur í tímann í þeim tilvikum þar sem hún hefur í höndum umsóknir frá lífeyrisþegum og upplýsingar sem duga til að reikna út fjárhæðirnar sem greiða skal. Einnig er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun beini áskorun til lífeyrisþega um að senda inn upplýsingar ef umsóknir liggi fyrir en upplýsingar eru ekki nægilegar. Miðað er við að allar greiðslur sem stofnunin getur sjálf reiknað án atbeina frá lífeyrisþega verði afgreiddar fyrir 1. apríl 2001.

Ákvæði IV til bráðabirgða í frv. gerir ráð fyrir að öryrkjar geti sótt um tekjutryggingu ef þeir telja sig eiga rétt á henni samkvæmt 1. gr. frv. en hafi ekki sótt um hana fyrir umrætt tímabil. Þeir verða þó að sækja um fyrir 1. júlí 2001. Eftir þann dag gilda ákvæði 42. gr. laga um almannatryggingar um greiðslur tvö ár aftur í tímann.

Ákvæði V til bráðabirgða í frv. fjallar um skattalega afgreiðslu tekjutryggingar þegar greitt er aftur í tímann. Kveðið er á um að Tryggingastofnun ríkisins beri að halda uppi staðgreiðslu af tekjutryggingunni. Þá er gert ráð fyrir að allt til ársloka 2001 geti örorkulífeyrisþegi óskað eftir því að greiðslur á tekjutryggingu vegna tekjuáranna 1997, 1998, 1999 og 2000 verði færðar honum til skattskyldra tekna á viðkomandi ári. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að öll fjárhæðin komi til álagningar með tekjum á árinu 2002. Í því felst að skattstjóri þarf að taka upp framtal þess bótaþega og endurákvarða opinber gjöld hans vegna þeirra ára sem mikilvægt er að öryrkjar geti valið þá leið í þessum efnum sem þeir kjósa að fara.

Virðulegi forseti. Áætlað er að kostnaður við frv. verði um einn milljarður kr. Mikla fyrirvara verður hins vegar að gera við þá áætlun sem þessi tala byggist á þar sem hún er byggð á greiðslum sem miðast við einn mánuð en þegar Tryggingastofnun ríkisins endurúrskurðar bæturnar verður að skoða hvern einstakling sérstaklega og reikna bætur fyrir hann allt árið. Þá er óvissa um fjölda þeirra sem hafa hugsanlega ekki sótt um tekjutryggingu vegna þess að þeir töldu tekjur maka það háar að ekki yrði um slíkar greiðslur að ræða. Ekki er tekið tillit til þeirra í þessari áætlun.

Virðulegi forseti. Heimilistekjur tæplega 90% hjóna sem fá bætur samkvæmt dómi Hæstaréttar eru 200 þús. kr. eða meira. Langflestir öryrkjar í þessum hópi eru í hjónabandi eða sambúð þar sem heimilistekjur eru 200--300 þús. kr. á mánuði og af hópnum sem Hæstiréttur dæmir bætur eru liðlega 7% sem eru með heimilistekjur hærri en hálfa milljón á mánuði.

Virðulegi forseti. Á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins í október 1998 sagði ég að ég liti á breytingar á makatengingu sem réttlætismál. Ég lýsti því yfir að síðar sama ár mundi ég stíga fyrsta skrefið til að draga úr tengingunni og koma því að lausn þessa máls. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki fyrst og fremst að hugsa um þá tekjuhæstu, 7% sem ég minntist á hér áðan þegar ég gaf þetta fyrirheit. Síðan þá hafa verið stigin tvö skref til að draga úr makatengingu. Í árslok 1998 var stigið skref sem kostaði þá um hálfan milljarð kr. og í september í fyrra steig ég annað skref sem kostaði um 200 millj. á ársgrundvelli til að draga úr tekjutengingum sem ég taldi vera réttlætismál. Með þessu voru stigin fyrstu skrefin í 30 ár til að draga úr tekjutengingum bóta og tekna maka. Enginn ráðherra, engin ríkisstjórn hafði sett einmitt þetta atriði á oddinn í aðgerðum sínum frá því að tekjutryggingu var komið á fyrir þremur áratugum en tekjutryggingin var í upphafi skert krónu fyrir krónu eins og ég veit að þeir fyrrv. heilbr.- og trmrh. sem enn sitja á Alþingi þekkja vel.

Frv. sem hér er mælt fyrir fjallar aðeins um að uppfylla dóm Hæstaréttar. Það snertir aðeins afmarkaðan hluta almannatryggingakerfisins en með dómnum er hins vegar snert við nokkrum grundvallarþáttum íslenska velferðarkerfisins og hann knýr okkur öll sem sitjum nú á Alþingi til að taka nokkra þætti þess til rækilegrar umræðu í framhaldinu.

Ég sagði í umræðum utan dagskrár í haust um þessi mál að ég teldi meira liggja á að bæta hag þeirra sem minnst hafa handa á milli og þeir væru næstir á dagskrá áður en lengra væri gengið í að draga úr áhrifum makatenginga. Dómur Hæstaréttar breytir forgangsröðuninni dálítið en ég legg hins vegar áherslu á að fyrir miðjan apríl liggi fyrir tillögur um það hvernig verði komið til móts við þá sem verst eru staddir.

Virðulegi forseti. Framtíðin skiptir meira máli en fortíðin í því máli sem við ræðum hér. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur kallað eftir tillögum um lagfæringar á almannatryggingakerfinu innan þriggja mánaða. Að vinnslu þeirra munu koma samtök aldraðra og öryrkja ásamt aðilum vinnumarkaðarins.

Virðulegi forseti. Ég hef í tíð minni sem heilbrrh. átt gott samstarf við flest hagsmunafélög og samtök. Auðvitað erum við ekki alltaf sammála en fundir og samtöl hafa aukið skilning og oft orðið til þess að leysa vandamál og bæta stöðu þeirra sem erfitt eiga.

Ég hef sem ráðherra fremur kosið að ræða við forustumenn almannasamtaka utan kastljóss fjölmiðlanna en innan. Þetta á við hagsmunahópa í heilbrigðisþjónustunni, þetta á líka við um Öryrkjabandalagið og forustumenn þess, samtök aldraðra og forustumenn verkalýðshreyfingarinnar.

Virðulegi forseti. Ef við skilgreinum rétt einstaklingsins í almannatryggingakerfinu þannig að hann sé eins fyrir alla og jafnóháður tekjum, eignum eða öðrum aðstæðum sem áhrif hafa á afkomu fólks, þá verður þessi réttur annaðhvort afskaplega verðlítill eða þá að kostnaðurinn verður óheyrilegur fyrir samfélagið. Ég trúi því ekki þess vegna fyrr en ég heyri það úr þessum ræðustól að talsmenn stjórnarandstöðunnar vilji túlka dómsniðurstöðu Hæstaréttar þannig að hún þýði endalok maka-, eigna- eða tekjutengingar í almannatryggingakerfinu.

Virðulegi forseti. Því er stundum haldið fram að tekjutengingarfyrirkomulag okkar sé arfur frá 19. öldinni og eigi sér hvergi stað í nágrannalöndunum. Þetta er rangt. Í flestum nálægum löndum sem við jöfnum okkur við eru bætur tengdar tekjum, bæði eigin tekjum og tekjum maka, annaðhvort beint eða óbeint með ákvörðun þess sem talið er að einstaklingurinn eða hjón þurfi til framfærslu. Ég hvet heilbr.- og trn. sem fær þetta frv. til meðferðar að kalla til sín sérfróða aðila til að fá staðfestingu á að fullyrðingar af þessu tagi eru réttar.

Virðulegi forseti. Dómur Hæstaréttar felur í sér að þegar tekjur maka skertu tekjutryggingu öryrkja þannig að eftir stóð grunnlífeyririnn einn, þá stæðist lagareglan ekki stjórnarskrárákvæðið. Með þessu frv. er dómnum fullnægt að áliti allra þeirra lögmanna sem ríkisstjórnin hefur leitað til. Því er haldið fram að nefndin sem skipuð var að tillögu minni hafi verið skipuð til að finna leiðir til að sniðganga dóminn. Það er af og frá. Þegar dómur Hæstaréttar fellur eins og í þessu máli er skylda stjórnvalda að viðhafa vönduð vinnubrögð. Ég held að flestir sem töldu unnt að hrista lausnina fram úr erminni daginn eftir að dómurinn féll hafi komist að raun um að málið er flóknara en svo.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt. Með lagafrv. er dómnum fullnægt en það þýðir ekki endilega að þetta frv. sé fullkomið og því er mjög mikilvægt að nefnd sú sem vinnur að endurskoðun almannatrygginganna vinni vel á næstu þremur mánuðum, sérstaklega með hagsmuni þeirra sem verst eru staddir að leiðarljósi. Mikilvægt er að vinna hratt til að öryrkjar fái greitt í samræmi við frv. hinn 1. febrúar nk. og fái þá einnig leiðréttingu fyrir janúarmánuð.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér því að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.