Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 11:16:44 (3690)

2001-01-17 11:16:44# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði að framtíðin skipti meira máli en fortíðin. Ég veit ekki hvort það er rétt í tilviki Framsfl. ef þetta mál verður keyrt í gegn með þessum hætti. Hæstv. heilbrrh. kom í þennan stól m.a. til þess að skapa sér hagfellda fortíð. Hún sagði að á ársfundi Tryggingastofnunar árið 1998 hefði hún sagt að hún liti á þessar breytingar sem réttlætismál. Hvað var það sem hæstv. heibrrh. sagði á þessum ársfundi? Hvað sagði hún í blaðaviðtali sem tekið var 30. september í tilefni af ársfundinum? Þar var hún spurð um hvaða breytingar eigi að fara að gera á almannatryggingakerfinu. Þar segir hún, með leyfi forseta:

,,Stærsta breytingin er að tekjur maka skerði ekki bætur öryrkja.``

Hæstv. heilbrrh. hefur tvisvar sinnum í þessum sal sagt að hún stefndi að því að afnema þessar skerðingar. Hún sagði hið sama á áðurnefndum fundi. Svo kemur hún hingað og segir að hún hafi aldrei sagt þetta heldur ætlað að breyta þessu.

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. verður að hafa kjark, þó hún sé í erfiðri stöðu, til þess að gangast við því sem hún hefur sagt.