Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 11:17:58 (3691)

2001-01-17 11:17:58# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einmitt staðið við það sem ég sagði á þessum ársfundi. Ég hef staðið við það. Ég hef hækkað frítekjumörkin til þess að koma um leið til móts við það af þessu hjónafólki sem minnst hefur. Það veit hv. þm. og ég er fyrsti ráðherrann sem það gerir.

Ég ætla að minna hv. þm. á tekjutengingar almennt og spyrja í leiðinni, hann verður að svara okkur því: Er hann á móti öllum tekjutengingum?

Ég ætla að minna hv. þm. á þann arf sem ég fékk. Ég vildi tala um framtíðina en hann vill tala um fortíðina. Þá ætla ég að spyrja hann hvort hann muni eftir því að ég tók við heilbrigðismálunum af fortíð Samfylkingarinnar sem hét þá Alþýðuflokkur. Þá var staðan sú að einstæð móðir sem var öryrki missti sérstaka heimilisuppbót ef hún eignaðist barn. Ef hún eignaðist barn þá missti hún þessa uppbót. Þessu breytti ég.

Það er ýmislegt fleira sem ég gæti rifjað upp úr fortíðinni ef hv. þm. vill tala um fortíðina en ég vil heldur tala um framtíðina.