Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 12:08:20 (3703)

2001-01-17 12:08:20# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég virði sannfæringu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem stafar af túlkun hans og skilningi á dómi Hæstaréttar. Ég hef hins vegar annan skilning og túlkun á dómnum.

Spurningar mínar til hv. þm. eru eftirfarandi:

Er hann sem vinstri maður og jafnaðarmaður hnugginn yfir þeirri niðurstöðu sem hann les úr dómnum sem leiðir til stóraukinnar einstaklingshyggju burt frá samtryggingu og jöfnuði, og bætir stöðu þeirra 10% öryrkja sem best eru settir?

Heildartekjur félaga í ASÍ fyrir dagvinnu og oft mikla yfirvinnu eru að meðaltali 160--170 þús. kr. á mánuði á öðrum ársfjórðungi árið 2000. Tveir slíkir í sambúð eru með 330 þús. kr. á mánuði og margir eru með miklu minna. Þetta fólk greiðir skatta, tekjuskatt og virðisaukaskatt. Þeir eru að meðaltali með lægri heimilistekjur en þeir 700 öryrkjar sem á að fara að hækka hjá en samkvæmt frétt Morgunblaðsins 13. janúar eru þeir með 340 þús. kr. í tekjur árið 1999, ári fyrr. Finnst hv. þm. félagslega rétt og í samræmi við samtryggingaheimssýn sína að leggja auknar skattbyrðar á lágtekjufólk til að hækka heimilistekjur þeirra sem hafa hærri heimilistekjur því bæturnar eru greiddar með sköttum?