Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 12:14:02 (3706)

2001-01-17 12:14:02# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Um hvað snýst þetta? Þetta snýst um virðingu fyrir einstaklingsbundnum mannréttindum. Ef hv. þm. dregur þá ályktun að ég sé einstaklingshyggjumaður þá er ég það. En ég verð líka að veita honum smá kennslustund varðandi þá hugmyndafræði sem við jafnaðarmenn byggjum starf okkar á. Við teljum að það samrýmist að hugsa um fólk og skapa öryggisnet velferðarkerfisins en skapa því samt svigrúm til að vera einstaklingshyggjumenn.

Herra forseti. Hv. þm. var í reynd að spyrja mig hvort ég væri þeirrar skoðunar að réttlætanlegt væri að skattleggja lágtekjufólk til þess að borga bætur til hátekjufólks, þá væntanlega í hópi öryrkja. Nú er það svo að hér talar talsmaður stjórnmálaflokks sem hefur nákvæmlega á síðustu árum tekið þátt í því í þessum sal að greiða atkvæði með því að skattleggja lágtekjufólk til þess að draga úr sköttum hátekjufólks. Það er einfaldlega þannig að við höfum ekki látið skattleysismörk fylgja launaþróun eins og þó var lofað í títtnefndri ræðu hæstv. forsrh. 9. des. 1997. Við höfum ekki gert það og það hefur leitt til þess að fjöldi manna í hópi öryrkja er allt í einu farinn að borga skatta af strípuðum bótum sínum, liggur mér við að segja, herra forseti. Og það er það sem hv. þm. hefur tekið þátt í að gera. Ég er á móti slíkri skattlagningu. Ég held að á síðasta ári hafi hún numið einhverjum milljörðum. Það sem skiptir máli hér, herra forseti, er að það virðist vera að skapast ríkur vilji fyrir því í liði stjórnarinnar að bæta hag þeirra verst settu í hópi öryrkjanna, bæta hag hinna verst settu í samfélaginu og það er strax mikill áfangi í þessari umræðu. Ég lýsi því yfir fyrir hönd okkar sem erum í stjórnarandstöðunni að við viljum taka í útrétta hönd stjórnarliðsins í þessum efnum sem að vísu stráfelldi allar okkar tillögur um þetta í desember sl. en við viljum gjarnan reyna að skapa tíma hér í þingsal til að samþykkja slíkar tillögur.