Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 12:59:37 (3709)

2001-01-17 12:59:37# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[12:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þá held ég að menn ættu að muna að tekjutengingarnar höfðu verið stórlega auknar og þessi réttindi skert árin þar á undan, á árum efnhagserfiðleika frá og með 1990 og fram um miðjan síðasta áratug. Menn verða auðvitað að setja þetta allt saman í sitt rétta samhengi.

[13:00]

Varðandi stöðu íslenska almannatryggingakerfisins gagnvart hinum Norðurlöndunum held ég að nú hafi hent hv. þm. að lesa bókina eins og sem sagt er að ákveðinn aðili lesi Biblíuna. Það er afar vandasamt að taka eina setningu út úr þykkri bók og ætla að fara að leiða með henni rök fyrir því að veruleikinn sé einhvern veginn öðruvísi en hann er. Ef hv. þm. hefði byrjað aðeins framar, á bls 355, og lesið t.d. þetta, með leyfi forseta:

,,Þegar litið er til þess sem er ólíkt í velferðarmálum Íslendinga og frændþjóðanna á Norðurlöndum verður fyrst staldrað við kostnað velferðarkerfanna. Útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála almennt eru mun minni á Íslandi en hjá frændþjóðunum. Það má einnig rekja til mikilvægustu skipulagsþáttanna sem eru með öðru sniði á Íslandi. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru mun lægri hér en hjá hinum þjóðunum og flatar bætur eru algengari. Það á til dæmis við um atvinnuleysisbætur, örorkulífeyri, sjúkradagpeninga og barnabætur.

Þá er lágtekjumiðun lífeyris ríkjandi á Íslandi, það er fullur lífeyrir er aðeins greiddur til þeirra sem hafa engar aðrar tekjur, en skertur til hinna.``

Þetta er miklu betri setning til að lýsa þessum samanburði en sú sem hv. þm. tók og væri ein og sér mjög afvegaleiðandi í þessum efnum. Sömu sögu segja töflur um útgjöld til þessara mála þar sem Ísland er langlægst, hvort sem það er kaupmáttarreiknað eða tekið sem hlutfall af þjóðarútgjöldum. Menn hafa bent á á móti að hér sé lífeyrissjóðakerfið fyrir utan og það er að hluta til skýring. En það á ekki við um þann hóp sem engra eða lítilla lífeyrisréttinda nýtur.