Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 13:09:34 (3715)

2001-01-17 13:09:34# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[13:09]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hann talaði mikið um mannréttindi og tók m.a. kosningarréttinn sem dæmi um grundvallarmannréttindi í upphafi ræðu sinnar. Er það ekki rétt hjá mér? (SJS: Um tjáningarfrelsi ...) Já, eða kosningarréttinn. Ég velti vöngum yfir því og rifja upp söguna. Mig minnir að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi verið í kjördæmisnefnd eigi alls fyrir löngu. Þar rakst ég hvergi á sératkvæði hv. þm., en í lögum er enn frekar og að áliti þeirrar nefndar er enn frekar fest það misvægi eftir búsetu að atkvæðavægið er 1:2.

Það vill svo til að ég er þingmaður Reykjaneskjördæmis sem verður fyrir hvað mestri skerðingu varðandi atkvæðavægi á milli landshluta. Eru það mannréttindi að við þurfum tvo Reyknesinga á móti einum manni í kjördæmi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar? Erum við ekki að brjóta mannréttindi hér, spyr ég? Hver er að tala um útúrsnúninga í þessum málum?

Mig langar til að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon annarrar spurningar: Er sá skilningur minn réttur eftir ræðu hv. þm. að ef hér lægi fyrir frv. sem væri upp á krónutöluna 51 þús. eða því sem nemur grunnörorkulífeyrinum og tekjutryggingunni, værum við þá að fullnægja dómnum að mati hv. þm.? Erum við að tala um það að ef hér væri frv. upp á 51 þús. kr. væri þá verið að fullnægja dómnum eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon les út úr honum?