Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 13:14:27 (3718)

2001-01-17 13:14:27# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[13:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. horfi fram hjá því mikilvæga atriði að ein af forsendum dómsins er sú að þarna var um tiltekinn afmarkaðan hóp að ræða sem tekin voru af réttindi, sem aðrir höfðu, með óréttmætum hætti. Hæstiréttur gat auðvitað ekki gengið út frá neinu öðru en núgildandi upphæð tekjutryggingar. Þá fyrst væri hann kominn út af sporinu og farinn að blanda sér í það sem er hlutverk okkar stjórnmálamanna.

En hann dæmdi að það hefði verið óréttmætt og ómálefnalegt og skort rök fyrir því að hafa af þessum tiltekna hópi það sem aðrir fá og gekk þar að sjálfsögðu út frá óskertri tekjutryggingu. Það er alveg ljóst. Ég held því að þetta sé ósköp einfaldlega þannig, miðað við þá túlkun sem blasir við og er auðvitað ein held í þessu máli, að það hlýtur að þurfa að miða við fulla tekjutryggingu eins og hún er núna eða er á hverjum tíma ákveðin af löggjafanum. Viðmiðanir yfir í annað eins og heimilisuppbót o.s.frv. eru síðan önnur saga.