Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:03:44 (3727)

2001-01-17 15:03:44# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að hæstv. forsrh. er sá sem hefur spilað ákveðnum tilteknum lögfræðingi inn í þetta mál og látið það fyrst og fremst snúast um lögfræði. Aldrei höfum við heyrt hann tala um það út frá öðrum sjónarhóli. Við höfum ekki tiltekið hvaða lögfræðinga við höfum rætt við. En hann leyfir sér að tala til okkar eins og við séum börn eða fávitar sem ekkert vitum hvað við erum að segja og það hvarflar náttúrlega ekki að honum að við höfum rætt við aðra. Það er umhugsunarefni, hæstv. forseti, að þá daga sem liðið hafa síðan dómur féll hefur hæstv. forsrh. aldrei rætt inntak dómsins þó að hann hafi fengið tækifæri til þess aleinn og án truflana í þáttum í fjölmiðlum, t.d. sjónvarpi, svo sem hann hefur fengið tækifæri til.

Það er alveg ljóst í þessu máli, herra forseti, að menn hafa verið að klæða afturhaldið í pólitíkinni í lögfræðibúning.