Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:05:42 (3729)

2001-01-17 15:05:42# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. felldi hér palladóma um málflutning stjórnarandstöðunnar og gerði það með sínum hætti. En ég hjó eftir því að hann nefndi frv. ekki einu orði í ræðu sinni. Það var öll málefnalega umræðan um frv. Hann nefndi það ekki einu orði.

Því vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., vegna þess að hann orðaði það svo að alger nauðsyn væri að setja lög, að ef dómur Hæstaréttar fjallar ekki um annað en það að ákveðið ákvæði í reglugerð falli brott og að ákvæði í 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga falli brott, þá þýðir það í sjálfu sér ekkert annað en að greiða ætti 51 þús. kr. út. Það er réttarstaðan sem er uppi.

Frv. fjallar um að borga ekki 51 þús. heldur 43 þús. Stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart ákveðnum hóp gengur ekki upp nema fram komi lög. Það er nákvæmlega kjarni málsins. Ríkisstjórnin neitar að borga 51 þús., heldur leggur fram frv. um að greiða 43 þús.