Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:09:09 (3732)

2001-01-17 15:09:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var stórmerkileg yfirlýsing sem þarna kom fram og ánægjuleg af hálfu eins af fáum lögfræðingum í liði Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunnar. Hv. þm. lýsti því yfir að hann væri andvígur því sem formaður Samfylkingarinnar lýsti yfir úr þessum ræðustól nú nýlega, að með dómi Hæstaréttar séu allar tengingar við tekjur maka ólögmætar. (Gripið fram í: Tekjutrygging.) Það var mjög þýðingarmikið. Mér finnst það ánægjulegt. (Gripið fram í: Tekjutrygging.) Mér fannst það þýðingarmikið og ánægjulegt að hv. þm. skyldi gefa þessa yfirlýsingu. (Gripið fram í.)