Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:10:52 (3734)

2001-01-17 15:10:52# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm., það var gott að fá þessa spurningu vegna þess að rökin fyrir því sjónarmiði sem ég er að lýsa koma mjög glöggt og vel fram í áliti tveggja dómara Hæstaréttar, forseta réttarins og annars dómara til, sem segja efnislega --- ég er ekki með dóminn fyrir framan mig --- og reyndar vitnaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson í það áðan, en sem segja efnislega að þetta er löggjafarmálefni en ekki dómsmálefni. Með öðrum orðum, pólitískt málefni. Um þetta er lögfræðilegur ágreiningur. Ég er sömu skoðunar og þessir tveir dómarar Hæstaréttar, að þarna hafi verið um löggjafarmálefni að ræða og þar með pólitískt málefni en ekki um júridískt málefni að ræða. (Gripið fram í.)