Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 16:02:15 (3746)

2001-01-17 16:02:15# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Allur málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar byggir á því að leggja tiltekinn skilning í tvær setningar í reifun Hæstaréttar, ekki í sjálft dómsorðið. Þess vegna var alvarlegt að hæstv. utanrrh. gerði sig því miður áðan sekan um að vitna rangt í aðra þeirra. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Talið hefur verið að einstaklingur í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn. Getur það því átt við málefnanleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki.``

Þarna er ekki minnst einu orði á tengingu við tekjur maka eins og hæstv. utanrrh. sagði því miður. Í því liggur hin ranga tilvitnun og hún er mjög alvarlegs eðlis.

Að öðru leyti, herra forseti, skil ég ekki hvað hæstv. utanrrh. gengur til að oftúlka gildi þess ef fallist yrði á dóm Hæstaréttar með því að greiða óskerta tekjutengingu. Þar með er ekki fallinn dómur gegn tekjujöfnunaraðgerðum almennt í samfélaginu.