Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 16:07:01 (3750)

2001-01-17 16:07:01# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fór mikinn í ræðu sinni og ásakaði stjórnarandstöðuna um að hafa skipt um skoðun. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að fyrir liggi hver afstaða Framsfl. er til þessa máls sem hér er verið að deila um, þ.e. að tekjur maka skerði tekjutryggingu öryrkjans.

Hæstv. heilbrrh. sagði fyrir tveimur árum í ræðu á Alþingi að þetta væri áralangt óréttlæti. Hún sagði síðan í blaðaviðtali, 30. sept. 1998, að Framsfl. ætlaði að breyta almannatryggingakerfinu. Hún sagði, með leyfi forseta:

,,Stærsta breytingin er að tekjur maka skerði ekki bætur öryrkja.``

Er þetta enn þá stefna Framsfl.?

Í öðru lagi, herra forseti, segir hæstv. ráðherra að dómurinn tryggi öryrkjum ákveðin lágmarksréttindi, að þeir hafi ákveðið að þetta verði 43 þús. kr. Hverjar eru málefnalegar forsendur þessarar ákvörðunar? Getur verið að þetta tengist þeirri staðreynd að 43 þús. kr. eru hin opinberu fátæktarmörk innan OECD?