Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 17:17:26 (3754)

2001-01-17 17:17:26# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað biðja forseta áður en ég hef mál mitt að sjá til þess að hæstv. ráðherrar verði hér í salnum á meðan ég flyt mál mitt. Sömuleiðis tveir síðustu ræðumenn sem töluðu á undan mér vegna þess að ég ætla að gera að umtalsefni í nokkrum orðum atriði sem komu fram í máli þeirra sem töluðu á undan mér, og vil ég biðja forseta um að stoppa klukkuna á meðan í bíð eftir að viðkomandi ráðherrar verði komnir í salinn.

(Forseti (ÍGP): Forseti verður við þessu, hv. þm. Hins vegar sé ég hér í tölvunni sem ég er með fyrir framan mig að hæstv. forsrh. er ekki í húsi.)

Það er nú verra. Betra væri að hann væri hér viðstaddur, því ég ætla einmitt að gera að umtalsefni nokkur atriði sem komu fram í ræðu hans.

(Forseti (ÍGP): Forseti hefur þegar komið þessum athugasemdum á framfæri og verið er að sækja viðkomandi ráðherra.)

Hæstv. forsrh. er farinn úr húsi, hann hefur ekki meiri áhuga á málinu en það.

Herra forseti. Fram hefur komið að ég óskaði eftir því að tveir síðustu ræðumenn sem töluðu á undan mér yrðu viðstaddir mál mitt vegna þess að ég ætla að gera ýmis atriði í ræðum þeirra að umtalsefni í upphafi ræðu minnar, en eitthvað er djúpt á því að hæstv. ráðherrar séu hér í kallfæri. Þó er mér sagt að formaður Framsfl. sé á leiðinni, en hæstv. heilbrrh. er komin í salinn og vildi ég gjarnan fá að vita hjá forseta hvort von sé á forsrh. til umræðunnar. Hann lagði mikið upp úr því, bæði í umræðunni á mánudaginn og sömuleiðis í dag, að mikil þörf væri á að ræða málið og að upplýsa þyrfti mjög margt í málinu. Þess vegna er það mjög sérkennilegt að hæstv. forsrh. skuli ekki gefa sér tíma til að vera viðstaddur umræðuna.

(Forseti (ÍGP): Það skal upplýst að forseti hefur komið þessum skilaboðum á framfæri og nú er hæstv. heilbrrh. mætt í salinn og hæstv. utanrrh. Forseti hefur komið þessum skilaboðum öllum á framfæri.)

Ég fagna því að a.m.k. tveir ráðherrar séu komnir í salinn af þeim sem ég óskaði eftir, (Gripið fram í: Enda með ábyrgð á málinu.) enda eru þeir með ábyrgð á málinu eins og bent er á hér úr sal.

Ég ætla að byrja á að koma að nokkrum atriðum sem komu fram í ræðum hjá tveim síðustu hv. ræðumönnum og byrja á að vitna í hæstv. forsrh. þar sem hann gerði að umtalsefni í máli sínu að ekki hefði verið vilji hjá stjórnarandstöðunni til að flýta umræðu um málið.

Mig langar til að leiðrétta þá fullyrðingu hæstv. forsrh. Það var hæstv. forsrh. sem tók málið af dagskrá á mánudaginn, það kom aldrei til þess að stjórnarandstaðan fengi að segja sitt um það hvort hún vildi fá málið á dagskrá. Reyndar kom fram í ræðum manna að þeir töldu ekki ástæðu til að flýta máli sem menn töldu að færi á svig við þann hæstaréttardóm sem hér er m.a. til umræðu og ræða frv. sem áfram brýtur mannréttindi og hefur í sér skerðingarákvæði gagnvart kjörum öryrkja miðað við dóm Hæstaréttar.

Vegna ummæla hæstv. forsrh. um afstöðu jafnaðarmanna árið 1998 til lagasetningarinnar, vil ég árétta það að mjög skýrt kom fram í máli okkar að við töldum að að öllum líkindum væri lagaákvæðið brot á stjórnarskránni og þar vitnuðum við til álits færra lögfræðinga. Reyndar hafði ekki verið úrskurðað um það en í þeirri lagagrein sem var hér til umfjöllunar og var lögfest á aðventunni 1998 voru ákveðin ívilnandi ákvæði hvað varðaði kjör öryrkja. Og vegna þess greiddum við ekki atkvæði gegn málinu heldur sátum við hjá, við greiddum ekki atkvæði og létum ríkisstjórninni eftir að bera ábyrgð á málinu, það skýrist hér, svo ekki sé um útúrsnúninga að ræða í þeim efnum.

Hæstv. forsrh. talaði um að vaktar hefðu verið miklar væntingar hjá öryrkjum, hjá öryrkjum almennt vegna þessa dóms. Og sama sagði hæstv. utanrrh., formaður Framsfl. Það var enginn að vekja neinar væntingar. Það var öllum ljóst að hér var verið að fjalla um kjör öryrkja í hjúskap með aðila sem ekki var lífeyrisþegi. Það var alveg ljóst. Verið var að tala um kjör öryrkja sem höfðu orðið fyrir kjaraskerðingu, þ.e. orðið fyrir skerðingu vegna tekna maka síns. Það átti að vera öllum ljóst og eftir því sem ég hef fylgst með umræðunni í fjölmiðlum frá því dómurinn féll, þá hef ég ekki orðið vör við að nokkur maður hafði reynt að afvegaleiða þann skilning á málinu. Ég veit því ekki um hvað þessir tveir síðustu ræðumenn eru að tala þegar þeir segja að einhverjir hafi verið að vekja væntingar. Það hafa a.m.k. ekki þeir þingmenn gert sem ég hef hlustað á tala um þetta og þeir fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hafa rætt þetta í fjölmiðlum, það hafa þeir aldrei gert og er ég með fulla möppu af öllu því sem fram hefur komið í fjölmiðlum um þetta mál frá því dómur féll.

Hæstv. forsrh. talaði einnig um háar fjárhæðir, stærsta mál sem komið hefur til þingsins, og nefndi upphæðirnar. Það er nú einu sinni þannig, herra forseti, að þegar menn hafa af fólki háar fjárhæðir, háar upphæðir, þá þurfa þeir auðvitað að greiða þær háu upphæðir til baka, þó svo að ríkisstjórnin ætli með frv. sem hér er til umræðu að koma sér hjá því að endurgreiða allt sem öryrkjum ber. Þeir ætla ekki að greiða til baka nema hluta af því sem haft var af þeim með þeirri tekjutengingu sem Hæstiréttur hefur nú úrskurðað ólögmæta. Ég minni á að í dómnum fellst Hæstiréttur, meiri hluti Hæstaréttar, á kröfu stefnanda, þ.e. Öryrkjabandalagsins, um að ekki sé heimilt að tengja tekjutryggingu örorkulífeyrisþega við tekjur maka, fellst á kröfuna óbreytta.

Hæstv. utanrrh. nefndi að hann hefði ekki lent í flóknara máli, og hann er einn af þingreyndari mönnum á Alþingi í dag. Það er alveg rétt. Almannatryggingarnar eru mjög flóknar. Þess vegna hlýtur að vera nokkuð flókið fyrir þá sem ekki þekkja vel til í almannatryggingunum að setja sig inn í þær. En eitt er alveg kristalklárt, dómurinn er mjög skýr. Dómur Hæstaréttar í þessu máli er mjög skýr.

Einnig kom fram í máli hæstv. utanrrh. að dómurinn fjallaði um hvað eigi að greiða öryrkja í hjúskap. Það má eiginlega segja að svo sé því samkvæmt dómi Hæstaréttar á að greiða öryrkja óskerta tekjutryggingu vegna tekna maka. Heimilt er að tengja bæturnar við hans eigin tekjur, en ekki við tekjur maka.

Hæstv. utanrrh. nefndi einnig og spurði: Hvað þá með ellilífeyrisþega? Ég get alveg sagt það sem skoðun mína að ég tel ekki, miðað við þennan dóm, stætt á því að láta ekki þessa reglu gilda um ellilífeyrisþega. Ég minni á að öryrkjar verða ellilífeyrisþegar þegar þeir verða 67 ára.

[17:30]

Er þá eðlilegt, um leið og öryrki verður aldraður, um leið og hann verður ellilífeyrisþegi, um leið og hann verður 67 ára, að þá eigi skerðingarakvæðin vegna tekna maka að fara að dynja á honum á fullu? Er það eðlilegt? Ég tel að svo sé ekki. Ég minni á að öryrkjar verða ekki minni öryrkjar þó þeir verði gamlir. Það er oft að þeir þurfi frekar meiri umönnum, meiri stuðning, beri meiri útgjöld vegna heilsufars síns, eftir því sem þeir verða eldri. Það er alveg ljóst í mínum huga að það er ekki hægt að láta þessa reglu fara að bitna á öryrkjanum um leið og hann verður 67 ára. Bara vegna jafnræðisreglunnar þá hlýtur þetta að gilda einnig um aldraða.

En það er reyndar ekki það sem við erum að ræða hér í dag. Við erum að ræða um öryrkjana og dóm þeirra og ég var aðeins að nefna þetta vegna athugasemda hæstv. utanrrh. hér fyrr á fundinum.

Aðspurður um stefnu Framsfl. hvað varðar tekjutengingu við tekjur maka vísaði hæstv. utanrrh. á frv. ríkisstjórnarinnar. Það fer ekki saman við yfirlýsingar hæstv. heilbrrh. í málinu sem hafa verið raktar hér í nokkrum ræðum á undan mér. Hæstv. heilbrrh. hefur lýst því yfir að það sé stefna hennar að afnema þessa tekjutengingu. Hún byrjaði það í áföngum, undir þrýstingi, vegna þess að það stóð til að fara í málaferli. En núna þegar tækifæri gefst til þess að afnema þessa tekjutengingu algjörlega, þá er komið fram með skerðingarfrv. Þá er ekki staðið við stefnuna. Þá kemur ríkisstjórnin með lagafrv. þar sem eru a.m.k. þrjú skerðingarákvæði miðað við dóm Hæstaréttar.

Tenging tekjutryggingar öryrkja við tekjur maka stenst ekki mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Hún er mannréttindabrot og hún stenst heldur ekki alþjóðasáttmála sem við höfum undirgengist að virða. Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé heimilt að skerða tekjutryggingu lífeyrisþega í hjúskap frá 1. jan. 1999 á þann hátt sem gert er í 5. mgr. 17. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Það þýðir að heimilt er að skerða t.d. tekjutryggingu vegna eigin tekna, vegna t.d. lífeyrissjóðstekna eins og gert er með aldraða, vegna fjármagnstekna o.s.frv., en ekki vegna tekna maka, vegna þess að í 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaganna sem fjallar um tekjutryggingu er bara verið að fjalla um tekjutenginguna við tekjur maka. Þar segir, svo ég hafi þetta beint upp úr lagatextanum, með leyfi forseta:

,,Nú nýtur aðeins annað hjóna örorkulífeyris og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna eru ekki hærri en 1.086.048 kr. á ári og skal þá greiða tekjutryggingu til viðbótar lífeyri þess að upphæð 356.965 kr. á ári. Hafi hjón hins vegar tekjur umfram 1.086.048 kr. á ári skal skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru.`` Viðmiðunartölur hafa reyndar breyst.

Í þessu ákvæði er sem sagt verið að fjalla um skerðingu tekjutryggingarinnar vegna tekna maka. Og það er vísað beint í 5. mgr. Og dómurinn segir að ekki sé heimilt að tekjutengja við tekjur maka eins og segir í 5. mgr. En til annarra tekjutenginga sem fjallað er um í 17. gr. tekur dómurinn ekki afstöðu. Hann er aðeins að fjalla um þessa tekjutengingu við tekjur maka, sem er í 5. mgr. Þetta er eins skýrt og það getur verið.

Hæstiréttur er að vekja athygli á því að skerðing grunnframfærslu með tekjum maka er ekki heimil, en dómararnir taka ekki sérstaklega á öðrum tengingum enda ekki beðnir um það.

Rétturinn til grunnframfærslu úr opinberum sjóðum nýtur verndar samkvæmt stjórnarskránni, samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og löggjafinn getur ekki skert þessi grunnréttindi, þessa grunnframfærslu. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að sama gildi um tímabilið frá 1. janúar 1994, en þá vantaði lagastoð fyrir þeirri reglugerð sem kvað á um skerðinguna. Yfir þetta hefur verið mjög rækilega farið. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór t.d. mjög rækilega yfir þetta mál í ræðu sinni hér fyrr í dag.

Einnig ber að ítreka það að dómsúrskurðinn verður að lesa í samræmi við kæruna sem var að þessi tekjutenging væri óheimil. Og Hæstiréttur féllst á allar kröfur Öryrkjabandalagsins. Dómurinn er því skýr enda orðréttur samhljóða kröfu ÖBÍ og það átti að greiða samkvæmt honum strax, endurgreiða þeim sem voru hlunnfarnir á þessu tímabili. Það á að endurgreiða þeim allt sem af þeim var haft en ekki bara hluta. Og það að koma með frv. inn í þingið sem á að virka aftur fyrir sig og skerða þær greiðslur sem á að endurgreiða til lífeyrisþeganna sem búið er að hafa af þeim, er náttúrlega ótrúlega siðlaust. Hæstiréttur er búinn að úrskurða um að það eigi að endurgreiða miðað við þær reglur sem giltu, miðað við það að tekjur maka skertu ekki tekjutrygginguna.

Það er áhyggjuefni hvernig afstaða stjórnvalda er gagnvart æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétti. Forsrh. setur á laggirnar yfirnefnd, undir forustu félaga síns, hæstaréttarlögmanns og lögmanns Tryggingarstofnunar ríkisins, til að meta hvernig eigi að leitast við að bregðast við dómnum, eða ,,leita leiða til að bregðast við dómnum``, eins og segir. Ekki til að framfylgja dómnum. Nei, bregðast við honum.

Að hvaða niðurstöðu komast lögmennirnir í nefndinni? Jú, það er í lagi að skammta öryrkja í sambúð 43 þús. kr. á mánuði og þetta ákveða mennirnir, lögfræðingarnir, vinir ríkisstjórnarinnar, sem eru hver um sig með meira en árstekjur öryrkjans á mánuði í laun samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar núna síðast. Þeir telja að öryrkinn þurfi ekki nema 43 þús. kr. til að sinna framfærsluskyldu sinni og fjölskyldunnar á mánuði, 43 þús. kr. Þessa upphæð finna þeir fyrir öryrkjann. Ekki fyrir sig. Nei, ekki fyrir sig. Lögfræðingur fær 43 þús. kr. fyrir dagsverk! En það er nóg fyrir öryrkjann á mánuði, heilsulausan mann og þann sem þarf að bera kostnað af heilsufari sínu. Með þessum upphæðum á hann að halda sjálfstæði og mannlegri reisn, 43 þús. kr.

Einnig leggur þessi yfirnefnd ríkisstjórnarinnar til enn brattari tekjutengu á þessa öryrkja, þá öryrkja sem eru í sambúð. Og ég spyr eins og aðrir hér á undan mér: Hvers vegna fá þessir öryrkjar ekki að halda 51 þús. kr.? Hver er ástæðan fyrir því, herra forseti? Þetta eru um 700 manns og það á að hafa af þeim um 8 þús. kr. á mánuði eins og hæstv. utanrrh. tiltók svo glögglega í Kastljóssþætti um daginn og einnig hér í ræðu sinni í þinginu. Og allt er þetta ,,hátekjufólk`` samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórninni, meira og minna hátekjufólk. Það hlýtur þá að borga af þessu skatta.

Og ef við reiknum þetta saman þá eru það svona innan við 40 millj. kr. á ári sem ríkisstjórnin er að spara með þessari fjallabaksleið, með því að hafa af öryrkjanum tæpar 8 þús. kr. á mánuði., 40 þús. kr. þegar búið er að borga af þessu skatta. Þetta eru miklir höfðingjar.

Hæstiréttur fjallaði um það hvort tekjutenging við tekjur maka væri heimil, m.a. í ljósi mannréttindaákvæða stjórnarskrár og alþjóðsáttmála sem við höfum undirgengist og fleiri þátta. Hæstiréttur hefur komist að því að svo sé ekki, eins og ég hef rakið hér að framan.

Önnur túlkun á niðurstöðu Hæstaréttar er útúrsnúningur. Því er niðurstaða yfirnefndar ríkisstjórnarinnar útúrsnúningur. Því er frv. það sem hér liggur fyrir Alþingi útúrsnúningur og í raun er ríkisstjórnin með því enn og aftur að lögfesta mannréttindabrot gagnvart öryrkjum, verði það að lögum, alveg eins og hún var að gera árið 1998 því það er verið að lögfesta hér skerðingar vegna tekna maka með þessu frv. sem Hæstiréttur er búinn að lýsa yfir mjög skýrt að er ekki heimilt gagnvart grunnframfærslu eins og tekjutryggingunni.

Auðvitað hefði verið langeinfaldast fyrir ríkisstjórnina að greiða út óskertar bætur í stað þess að hafa þessar upphæðir af öryrkjunum. Þetta kostar smánarupphæðir. Þetta kostar helmingi minna en framúrkeyrslan á Þjóðmenningarhúsinu sem menn voru nú ekki mikið að kippa sér upp við.

Ég verð að segja að vinnubrögð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í þessu máli líkjast í mörgum atriðum vinnubrögðum hjá ríkjum sem hafa verið kennd við ákveðinn ávöxt. Ég fer ekki ofan af því.

Ég minni einnig á að með þessari málsmeðferð er heilbrrh. að ganga gróflega á bak orða sinna og þegar ráðherrar gera slíkt og það í siðmenntuðum ríkjum, þá kallar það yfirleitt á afsögn viðkomandi.

Hér gerði hæstv. heilbrrh. það að umtalsefni að þetta væri nú bara nokkuð vel stæðar fjölskyldur með 200 þús. kr. tekjur á mánuði. Ég verð að segja að það teljast ekki háar tekjur í dag. Ég veit ekki betur en lágmarkslaun verkamanna séu hátt í helmingurinn af þessu. Og við vitum alveg að við framfleytum ekki fjölskyldu nema á tvennum lágmarkstekjum. Annað er alveg vita vonlaust. Við vitum líka að í tilvikum þar sem öryrki hefur orðið fyrir þessari skerðingu sem nú er búið að dæma ógilda, þá hafa menn lent í því og ég þekki a.m.k. mörg dæmi þess, að maki öryrkjans hefur þurft að leggja á sig margfalda vinnu vegna tekjuskerðingar fjölskyldunnar, næturvinnu, eftirvinnu, yfirvinnu og verið í fleiri störfum, bara til að láta enda ná saman vegna þess að það er dýrt að vera heilsulaus. Það er dýrt að þurfa að leita heilbrigðisþjónustu. Það er dýrt að þurfa að fá aðstoð vegna umönnunar og reksturs heimilis þar sem sjúkdómar og annað hrjá fjölskyldumeðlimi.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka hér orð hæstv. heilbrrh. á fundi Tryggingastofnunar ríkisins. Það hefur verið gert, ummæli í blaðagreinum og hér um nóttina örlagaríku fyrir jólin 1998. Ráðherrann hefur margoft lýst því yfir að hún ætli að afnema þetta. Hún hefur tækifæri til þess núna en hún ætlar ekki að nota sér það tækifæri. Í staðinn ætlar hún að koma hér með skerðingarfrv. sem á að keyra í gegnum þingið og halda áfram að skerða vegna tekna maka.

Maður veltir fyrir sér hvar sjálfsvirðing ráðherra sé sem gerir slíkt, að ætla að fara að lögfesta hér mannréttindabrot að nýju miðað við niðurstöður Hæstaréttar. Hvar er sjálfsvirðingin?

[17:45]

Ég minni á að lágmarksframfærsla fyrir þá sem eru atvinnulausir er samkvæmt velferðarkerfinu 67 þús. kr. óháð tekjum maka. En öryrkjum, sem eru með skerta starfsgetu og geta ekki aukið við tekjur sínar, eiga að duga 43 þús. kr. meðan sá atvinnulausi á að hafa 67 þús. kr. Þarf öryrkinn, herra forseti --- og ágætt væri ef hæstv. ráðherra legði aðeins við hlustir --- fatlaður, sjúkur og með skerta starfsgetu, minna en atvinnuleysinginn til að halda sjálfstæði sínu og reisn sinni? Þarf hann minna?

Ég minni á að atvinnulaus maður fær 67 þús. kr. þó svo að maki hans sé með milljón á mánuði, 2 millj. á mánuði eða hvað það er. Atvinnuleysisbæturnar eru algjörlega óháðar tekjum maka. Ég velti fyrir mér, hvers konar viðmiðanir eru þessar 43 þús. kr.? Hvaðan kemur þessi upphæð? Ég minni á að nýbakaði faðirinn, forstjórinn, getur fengið 5 millj. á þrem mánuðum, ef svo verkast, í fæðingarorlofi óháð tekjum maka úr ríkissjóði. Það er upphæð sem tekur öryrkjann tíu ár að vinna fyrir. Það gerði enginn athugasemdir við þessa lagasetningu, reiknað út eða borið saman.

En þegar það er öryrki þá er aldeilis reiknað og skert. Svona er forgangsröðunin og réttlætið hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í upphafi nýrrar aldar. Ekki hefur nú mikið verið minnst á tekjutengingar þegar aðrir þættir eru til umræðu.

Við vitum alveg hvernig búið hefur verið að öryrkjum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við vitum alveg hvaða smánarkjör öryrkjum eru búin í almannatryggingunum. Við vitum líka hvernig t.d. börn öryrkja hafa orðið afskipt í samfélaginu vegna fjárhagsstöðu þeirra, þ.e. öryrkjanna. Ekki á að þurfa að minna á það því margoft hefur verið bent á það í utandagskrárumræðum og í umræðum um almannatryggingar hvernig láglaunastefna ríkisstjórnarinnar gagnvart öryrkjum hefur leikið fjölskyldur þeirra. Við vitum að börnin þeirra geta ekki tekið þátt í íþróttum, tónlist og öðru félagsstarfi vegna þess að öryrkinn býr við fátækt á Íslandi.

Þessi tekjutengingarregla gagnvart tekjum maka er regla sem veitist gegn fjölskyldunni, veitist gegn grundvallareiningu samfélagsins, fjölskyldunni. Á þetta hafa prestar og biskup bent. Þetta hefur valdið ótrúlega mörgum skilnuðum og brotið upp fjölskyldur. Þetta hefur valdið mörgum mikilli vanlíðan og sorg. Ég tel að menn eigi að hafa þetta í huga og sérstaklega Sjálfstfl. sem hefur margoft ályktað um gildi fjölskyldunnar og hvernig þurfi að verja hana og styðja fólk í að búa í fjölskyldu og að fólk beri ekki af því fjárhagslegt tjón velji það að vera í hjónabandi eða sambúð. Þetta er ályktun frá síðasta landsfundi Sjálfstfl. Þrátt fyrir það er komið hér með skerðingarákvæði þannig að það geri fólki erfiðara en ella að búa í fjölskyldu.

Ég vil einnig benda á að það að beita fyrningarákvæðum við endurgreiðslu þessara tryggingabóta misbýður réttlætiskennd fólks. Að ætla ekki að greiða til baka það sem búið er að hafa af öryrkjum í sambúð frá 1994 er auðvitað algjörlega siðlaust.

Herra forseti. Ég sé að nokkuð er liðið á tíma minn og margt er það sem ég hefði viljað nefna af þáttum sem varða þetta mál og ég tel að eigi erindi inn í umræðuna. Ég ætla aðeins að nefna atriði sem kemur fram í frv., þ.e. í fylgiskjölum þess, og fulltrúar ríkisstjórnarinnar, aðallega formaður Framsfl. hefur gert að umtalsefni og vitnað í í máli sínu, en það er fskj. 2 sem ber yfirskriftina Norrænn réttur þar sem fjallað er um réttindi lífeyrisþega á Norðurlöndum og samanburður við réttindi á Íslandi. Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra hjá hæstv. ráðherra: Hvaðan kemur þetta fylgiskjal? Hvaða plagg er þetta sem hæstv. ráðherra setur inn í þingskjalið sem fylgiskjal? Því það er með ólíkindum að fara í gegnum þetta plagg.

Ég verð að segja að hér er í rauninni vísvitandi verið að fara með rangt mál, a.m.k. ef ekki vísvitandi þá eru menn illa upplýstir um norrænan rétt ef þeir telja að þetta sé ástandið. Ég verð að segja það, ég vann við þessi mál í mörg ár hjá Tryggingastofnun ríkisins einmitt við að bera þetta saman. Á sérstökum námskeiðum sem Tryggingastofnun hélt með öðrum Norðurlöndum var farið yfir það hver staða t.d. öryrkja væri við ýmsar aðstæður eftir því í hvaða landi hann byggi og sett voru upp dæmi um slíkt. Það er alveg ljóst að í hvert einasta skipti sem dæmi var tekið um Norðurlöndin þá var enginn sem kaus að búa á Íslandi við þær aðstæður sem voru settar upp. Í öllum dæmum væru greiðslurnar lægstar og kjörin verst á Íslandi. Það getur aðstoðarmaður ráðherra, Vilborg Hauksdóttir, sem situr hér í hliðarherbergi vitnað um sem sat á einhverjum af þessum námskeiðum ásamt mér.

Ég fór því að skoða þessar tölur og þær fullyrðingar í þessu dæmalausa plaggi sem fylgir með frv. Ég velti fyrir mér hvort gagngerar breytingar á almannatryggingunum á Norðurlöndunum hefðu verið gerðar síðan ég kom á þing árið 1995. Ég hafði samband við tryggingastofnanirnar bæði í Danmörku og Noregi vegna þess að tekið er sérstaklega til þeirra landa í þessu plaggi og menn vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar ég fór að spyrjast fyrir um tekjutengingu við tekjur maka. Það var nú aldeilis ekki.

Enda þegar maður fer að skoða töflurnar sem fylgja með þá eru nú aldeilis ekki réttar upplýsingar í þeim töflum. Þar er tekjutrygging t.d. á Íslandi 1998 sögð vera 43.396 kr. Hún var rúmar 28 þús. kr. á þeim tíma. Hvers konar fals og rugl er þetta? Það er greinilega verið að tala um einhverja allt aðra tekjutryggingu en er í almannatryggingalögunum og var þar 1998. Hér er greinilega verið að taka lífeyrissjóðstekjur eða meðaltalslífeyrissjóðstekjur eða eitthvað allt annað þarna inn í. Hér er alls ekki verið að tala um þá tekjutryggingu sem við erum að fjalla hér um og dómur Hæstaréttar fjallar um og óheimilt er að tengja tekjum maka. Heldur betur ekki.

Síðan á að sanna þetta með töflu á bls. 9, töflu 7,3, sem er birt á Norðurlandamáli. Þar eru tíndar til ýmsar bætur og ekkert af þeim bótaflokkum eru almannatryggingar. Þetta eru allt saman bætur um félagslega aðstoð. Þetta eru bætur sem heyra undir allt önnur lög en þau sem við erum að fjalla um. Og þetta á að sanna það að almannatryggingarnar séu tengdar við tekjur maka á Norðurlöndunum.

Hvað eru menn að fara í ráðuneytinu með því að bera slík plögg á borð? Voru þetta kannski lögskýringargögn í þessum dómi? Að minnsta kosti sá ég það í skýrslu nefndar forsrh. að þeir hafa haft þetta plagg til hliðsjónar því að vitnað er í það í nefndarskýrslunni. Ég tel það mjög alvarlegt þegar verið er að bera á borð fyrir nefndir sem fjalla um svona niðurstöður eins og dóm Hæstaréttar eða leggja til í þingskjali til rökstuðnings við þingmálið að vera með alrangar upplýsingar. Það vita auðvitað allir sem vilja vita og þekkja almannatryggingarnar að þetta snýr alls ekkert að grundvallarframfærsluréttinum, tekjutryggingunni, eins og hún er í íslenskum lögum sem við erum að fjalla hér um. Þetta er allt annar handleggur. Síðan komast menn að þeirri niðurstöðu í þessu plaggi um norrænan rétt þar sem tíndar eru til allar þessar tekjutengingar að: ,,Þrátt fyrir þessar tekjutengingar verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að staða öryrkja á Íslandi sé sambærileg við það sem víðast þekkist á Norðurlöndum.`` Svei mér þá.

Ég ætla aðeins að fara yfir það hvernig þetta er t.d. í Danmörku sem alltaf er verið að vitna til í þessu plaggi. Þar er nú aldeilis ekki verið að tengja við tekjur maka. Þar hafa menn grunnlífeyri og það eru fjórir bótaflokkar sem menn hafa rétt á ef þeir eru öryrkjar, 75% öryrkjar, þ.e. algjörir öryrkjar. Það eru fjórir bótaflokkar, fjórði bótaflokkurinn er uppbót. Hann er að nokkru tengdur við tekjur maka, en það er ekki grundvallarframfærsla. Það er þannig að áður en að uppbótinni kemur er öryrkinn í Danmörku með 95.200 ísl. kr. í grunnframfærslu. Ofan á það getur uppbótin komið. Reyndar má lækka tvo bótaflokkana aðeins ef menn eru í hjúskap alveg eins og grunnlífeyririnn lækkar í 90% ef báðir eru öryrkjar hjá okkur, þá lækkar hann aðeins hjá okkur, og það hefur enginn gert athugasemd við það. Hann er heldur lægri. Þannig að öryrki sem er í sambúð, þ.e. ef bæði hjóna eru öryrkjar, þá er lægri greiðsla, 83.800 ísl. kr. á mánuði.

Þetta er rétturinn á Norðurlöndunum og geta menn enn samþykkt að þetta sé sambærilegt við réttinn á Íslandi þar sem á að fara að setja grunnframfærsluna niður í 43 þús. kr., helminginn af þeirri upphæð sem öryrki í sambúð í Danmörku fær?

Sömu reglur gilda í Noregi og ég er með plögg um þetta allt saman frá viðkomandi stofnunum hvernig þessu er háttað. Þar er greiddur fullur grunnlífeyrir en ef annað hjóna eða ef um sambúðarfólk er að ræða og sambúðaraðilinn er með verulegar tekjur, þá er frá árinu 1998 lægri greiðsla, þ.e. 3/4 alveg eins og sambúðarfólk í dag hjá okkur fær 90% grunnlífeyri og enginn gerir athugasemd við það.

Í Noregi er mánaðarlífeyrir til öryrkja 130 þús. ísl. kr. á mánuði, það er grunnrétturinn. Hann fær viðbótaruppbót, makauppbót, ef sýnt er fram á að öryrkinn sé með maka á framfæri sínu, ef öryrkinn er með maka á framfæri sínu þá fær hann uppbót. Svona eru nú réttindin á Norðurlöndunum sem þeir halda fram hér í þessu fylgiskjali að séu sambærileg og á Íslandi.

Reyndar er það svo að erfitt er að bera þessar bætur saman, og hefur það komið fram í ræðum á undan mér. Bent hefur verið á að þó svo að kerfin séu nokkuð lík þá eru þau að öðru leyti ólík þannig að mjög erfitt er að bera þetta saman. En engu að síður segir það okkur alla söguna að í þeim löndum sem stjórnvöld halda fram í þessu plaggi að séu tengd við tekjur maka eru menn með þennan grundvallarframfærslurétt sem er helmingi hærri en hér á landi. Ég tel það mjög alvarlegt að menn skuli halda slíku fram í plaggi sem er fylgiskjal með frv. og vísa í heimildabætur sem heyra undir allt önnur lög og eru allt annar handleggur. Það er einmitt vísað til þess í hæstaréttardómnum, og ég ætla aðeins að vitna í það atriði. Í hæstaréttardómnum er einmitt vísað til þess að menn skuli gæta sín á því að rugla ekki saman félagslegri aðstoð og almannatryggingum. Og ég veit að aðstoðarmaður ráðherra, lögfræðingurinn Vilborg Hauksdóttir, sem situr hér til hliðar þekkir þetta vel vegna þess að hann vann einmitt að þessari lagasetningu á sínum tíma þannig að það ætti að vera auðvelt fyrir ráðherrann að fá upplýsingar hjá aðstoðarmanni sínum úr ráðuneytinu um það.

En eins og segir í dómnum, í aðfaraorðum hans, og er vísað þar í athugasemdir með frv. frá 1993, um almannatryggingar, og frv. um félagslega aðstoð, þ.e. lögin nr. 117/1993 og lögin nr. 118/1993, en seinni lögin eru lög um félagslega aðstoð. Þar er bent á að nauðsynlegt sé að gera glöggan greinarmun á bótum almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar vegna reglna Evrópubandalagsins um almannatryggingar.

[18:00]

Í frv. voru flutt þau ákvæði lífeyristryggingakafla almannatrygginga sem í raun voru ákvæði um félagslega aðstoð, eins og t.d. mæðra- og feðralaun, umönnunarbætur, makabætur, heimilisuppbót og uppbætur vegna sérstakra aðstæðna. Þetta eru uppbætur sem eru tengdar alls konar tekjutengingum og öðrum ákvæðum. Meðal annars er heimilisuppbótin tengd því hvort menn eru í sambúð eða ekki, hvort þeir búa með öðrum í heimili. En almannatryggingabæturnar eru eins og Hæstiréttur bendir á grundvallarmannréttindi sem ekki skal skerða.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er nánast lokið, en ég á eftir að koma hér að mörgum atriðum, þannig að ég mun líklega taka til máls aftur í umræðunni. En ég verð að geta þess áður en ég lýk máli mínu, að ég tel það forkastanlegt og alls ekki viðunandi að lagaákvæðin í þessu frv. sem ríkisstjórnin setur hér inn og er nú til umræðu, um skerðingu vegna tekna maka verði látin virka afturvirkt vegna endurgreiðslnanna. Ég tel það ekki boðlegt og ég leyfi mér að efast um að það sé löglegt, ef það er löglegt þá er það algjörlega siðlaust.

Herra forseti. Ég mun taka til máls aftur til að koma að ýmsum atriðum til viðbótar sem ég tel fulla ástæðu til að komi hér inn í þessa umræðu, en ég hef lokið máli mínu að sinni.