Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:02:09 (3755)

2001-01-17 18:02:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræðuna sem hún flutti og ég virði skoðanir hennar og sannfæringu og mat hennar á dómi Hæstaréttar. Ég er hins vegar á allt annarri skoðun, ég hef lagt allt annað mat á dóm Hæstaréttar og ég geri kröfu til þess að hv. þm. virði skoðanir mínar og sannfæringu sömuleiðis.

Ég vil spyrja hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur: Ef hún hefði þá fjármuni sem hér er um að ræða, nokkur hundruð milljónir til ráðstöfunar úr ríkissjóði, hvort mundi hún heldur vilja sjá þá fjármuni fara til öryrkja með lágar tekjur, t.d. 75 þús. kr. á mánuði, einstaklings eða hjóna með bætur samanlagt 102 þús. á mánuði, eða til þeirra öryrkja sem eru með heimilistekjur yfir 200 þús., jafnvel 23% þeirra eru með heimilistekjur yfir 400 þús. kr. á mánuði? Ég vil ekki að hv. þm. geri lítið úr mér með því að segja að hv. þm. mundi gera hvort tveggja vegna þess að fjármunirnir eru takmarkaðir.

Ég er sammála hv. þm. að skoða þurfi dæmið með nákvæmlega sama hætti gagnvart tekjutryggingu aldraðra, en þá kostar dæmið eflaust milljarða og það er til þeirra sem bestar hafa heimilistekjurnar.

Nú eru bætur Tryggingastofnunar greiddar beint með sköttum, allir greiða t.d. virðisaukaskatt. Finnst hv. þm. eðlilegt og réttlátt og í samræmi við eignarréttar- og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar að skattleggja aukalega lágtekjufólk, t.d. verkamannafjölskyldu, til þess að auka bætur til hátekjufjölskyldu, t.d. læknis sem er giftur öryrkja, um 360 þús. kr. á ári, en þannig túlkar hv. þm. dóm Hæstaréttar.