Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:04:16 (3756)

2001-01-17 18:04:16# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ekki megi brjóta mannréttindi á fólki. Um það snýst þessi dómur Hæstaréttar. Hann segir að það sé mannréttindabrot að skerða tekjur, þ.e. tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka. Þess vegna tel ég að það eigi að greiða þetta, vegna þess að annað er brot á mannréttindum. Ég tel ekki að brjóta eigi mannréttindi á fólki til að bæta kjör annarra. Aftur á móti tel ég, eins og kom fram í máli mínu, löngu, löngu tímabært að bæta kjör lífeyrisþega. Þessi ríkisstjórn hefur veist að kjörum þeirra aftur og aftur. Aftengt þau launaþróun. Aukið útgjöld vegna lyfja. Fækkað bílakaupastyrkjum. Gert bílakaupalánin langtum óhagstæðari. Útvarpsgjöldin eru komin á öryrkjana o.s.frv. Ég get talið svona áfram í það endalausa. Auðvitað hefði átt að vera löngu búið að taka á kjörum öryrkja.

En ég spyr hv. þm.: Telur hann eðlilegt að brjóta mannréttindi á ákveðnum hópi, þ.e. mannréttindi öryrkja í sambúð til að bæta kjör annarra? Telur hann mannréttindabrot eins og Hæstiréttur nefnir hér vera eðlileg og heimil?