Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:07:54 (3759)

2001-01-17 18:07:54# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er einn þeirra sem eru að reyna að skilja hví þetta mál er komið í svo harðan hnút og hví menn deila svo hart eins og raun ber vitni. Það hefur margsinnis komið fram hvernig ríkisstjórnin stóð að þessum hlutum og síðasti ræðumaður margítrekaði það í ræðu sinni að sá skilningur sem þar lægi á bak við, þ.e. gerð þessa frv., skilningur á dómi Hæstaréttar væri útúrsnúningur, hreinn útúrsnúningur margítrekaði hv. ræðumaður.

Nú er það svo, herra forseti, með hæstaréttardóma að eflaust hafa menn leyfi til þess að skilja þá eins og þeir vilja. En það vekur dálítið furðu mína hvers vegna stjórnarandstaðan, sem er svo mjög mikið niðri fyrir í þessu máli, hefur ekki notað hinn langa tíma sem liðinn er frá því að dómur var kveðinn upp til þess að leita til hlutlausra aðila til að fara yfir dóminn til að geta skilið og borið hann saman við þann skilning sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru að leggja í dóminn. Værum við ekki betur sett, væri þá ekki betur komið ef við gætum borið saman hlutlægt mat á þessu í staðinn fyrir að standa í því núna að deila svo hart og hafa uppi svo mörg köpuryrði sem raun ber vitni?