Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:34:34 (3764)

2001-01-17 18:34:34# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þó að ég sé svo takmarkaður að ég kunni ekki að reikna o.s.frv. eins og hv. þm. sagði þá hef ég nú samt sem áður skoðun mína og skilning minn á dómi Hæstaréttar. Og ég hef ekki fundið sannleikann eins og hv. þm. þegar allt verður svo skýrt og einfalt.

Hv. þm. sagði að hann og öll stjórnarandstaðan skildist mér því hann veit víst skoðun allrar stjórnarandstöðunnar, þetta er sameiginleg skoðun, hafi unnið að því að bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Núna snýst það allt í einu við. Nú er tekin yfir einstaklingshyggja, nú á að fara að bæta stöðu þeirra sem eru vel settir. Ég spyr: Hvenær breyttist skoðun hv. þm. í þeim efnum að hætta að bæta kjör þeirra sem verst eru settir og fara að bæta kjör hátekjufjölskyldna?

Nú er það þannig, herra forseti, að allar bætur Tryggingastofnunar eru greiddar með sköttum. Finnst hv. þm. Ögmundi Jónassyni, formanni BSRB, eðlilegt að lágtekjufjölskylda, t.d. félagar í BSRB, sem hafa því miður ekki allir mjög háar tekjur, kannski með 300 þús. kr. mánaðartekjur í heild, fjölskyldutekjur, sé skattlögð aukalega til þess að greiða aukabætur til hátekjufjölskyldna? T.d. hefur komið fram að 23% þeirra fjölskyldna sem munu njóta þessara bóta, samkvæmt skilningi hv. þm. eru það 360 þús. kr. á ári, eru með meira en 400 þús. kr. á mánuði. Ég hugsa að ekki séu margir félagar í BSRB með slíkar fjölskyldutekjur. Finnst hv. þm. þetta eðlilegt og er þetta í samræmi við það að bæta kjör þeirra sem verst eru settir?