Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:36:42 (3765)

2001-01-17 18:36:42# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér stórlega að draga í efa þær upplýsingar sem komu fram á baksíðu Morgunblaðsins ekki alls fyrir löngu. Ég horfi frekar á þær upplýsingar sem bornar voru fram í þinginu fyrir tveimur árum af hæstv. forsrh. þar sem fram kom að meðaltekjur maka öryrkja eru 132 þús. kr. á mánuði. Þetta kom fram í skýrslu hæstv. forsrh. á sínum tíma.

Í Morgunblaðinu kemur fram m.a, með leyfi forseta, að mikill meiri hluti öryrkjanna er með litlar sem engar tekjur aðrar en bótagreiðslur Tryggingastofnunar, yfir 98% alls hópsins hafa minna en 50 þús. kr. í eigin tekjur á mánuði eða fá eingöngu greiðslur frá Tryggingastofnun.

Þegar greinin er lesin og greinargerðin með henni kemur í ljós hvers konar afvegaleiðing hér er á ferðinni. Hv. þm. Pétur H. Blöndal tekur þátt í því að afvegaleiða okkur í þessu efni. Það sem þetta mál snýst um er hvort við ætlum að virða réttarríki á Íslandi. Það er staðreynd málsins. Um það erum við að fjalla. Þegar hv. þm. reynir að stilla þessu upp sem valkostum sem við stöndum frammi fyrir, annars vegar að greiða þessar tæpu 40 milljónir kr. á ári og hins vegar að koma til móts eða bæta kjör öryrkja almennt og aldraðra er málflutningur af þessu tagi náttúrlega algjörlega út í hött.

Ég vil minna hv. þm. á það að rétt fyrir jólin fór fram alvöruumræða um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu þegar við vorum að fjalla um skattlagningu á söluhagnaði af hlutafé sem ríkisstjórnin færði niður úr tekjuskattsprósentu og niður í 10%. Þar vorum við að tala um milljarða en ekki fáeinar milljónir.

Þetta mál fjallar hins vegar um réttarríki á Íslandi.