Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:19:31 (3774)

2001-01-17 19:19:31# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:19]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka fram að það er rangt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson segir hér, að ætlunin sé að hafa eitthvað af öryrkjum. Það er rangt.

Það sem við erum að gera hér á hinu háa Alþingi er að bæta kjör ákveðins hóps (ÖJ: Samkvæmt dómi.) samkvæmt dómi. Það sem var áður 18 þús. er fært upp í 43 þús. kr. á mánuði að lágmarki. (ÖJ: Af hverju ekki 51?) Það eru fyrir því ákveðin rök (ÖJ: Hver eru þau?) og ég fór í gegnum þau í ræðu minni hér áðan. (Gripið fram í: Nei.) Það er viðurkennt að það er ákveðið hagræði af því að vera í sambúð. Það hagræði felst í því að það er ódýrara að kaupa inn fyrir tvo en fyrir einn.