Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:27:06 (3780)

2001-01-17 19:27:06# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:27]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram rök í mínu máli varðandi það að dómnum verður fullnægt. Það er ljóst að með frv. ríkisstjórnarinnar sem liggur hér á borðinu erum við að fullnægja hæstaréttardómi.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði hvort ég væri sammála Pétri Blöndal. Ég er sannarlega sammála hv. þm. Pétri Blöndal. Hér stendur til að auka ójafnræði í tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Hvaðan kemur almannafé? Almannafé kemur af sköttum landsmanna. Hvaðan er þetta fé tekið sem nota á til að greiða þeim sem meira hafa? Af sköttum landsmanna.

Þannig er alveg ljóst að það á að færa fé frá þeim sem minna mega sín til þeirra sem meira hafa. Ég er undrandi yfir því að hv. stjórnarandstaða, sem telur sér til tekna að berjast fyrir launajöfnuði í landinu, skuli taka þá afstöðu sem hún tekur hér í umræðunni í dag.