Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:33:53 (3786)

2001-01-17 19:33:53# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:33]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hrædd um að 40 millj. mundu duga skammt fyrir þennan hóp, átta þúsund ellilífeyrisþega, sem eftir sitja. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar stendur að það eigi sérstaklega að huga að hag aldraðra, öryrkja og þeirra sem bágust kjörin hafa. Það hefur tekið að mínu mati heldur langan tíma að klára þá vinnu að endurskoða almannatryggingakerfið til að hægt sé að endurspegla þessa yfirlýsingu. Ég hef sérstaklega horft til þess að nefnd hefur verið að störfum til að skoða samspil skattkerfisins, lífeyriskerfisins og almenna tryggingakerfisins þannig að það sé ekki hvað að bíta í skottið á öðru svo að hægt verði að bæta kjör þessa fólks.

Ég var að vonast til að nefndin sem hefur þetta hlutverk mundi skila gögnum núna í janúar en það verður bið á því.