Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:35:09 (3787)

2001-01-17 19:35:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:35]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh., sem því miður hefur ekki haft tíma til að sitja og hlusta á þessa umræðu boðaði, fyrr í dag að stjórnarliðar væru tilbúnir til að taka þátt í málefnalegri umræðu, mjög málefnalegri. Ég verð að segja að eftir að hafa hlustað á þessa umræðu sem farið hefur hér fram þá finnst mér hún ekki vera málefnaleg af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar. Það er að vísu fjallað um ýmislegt hollt og gott en ekki raunverulegt efni dagsins, þ.e. þann hæstaréttardóm sem hér er verið að brjóta á bak aftur. Ég verð að segja að af málflutningi hv. þm. Ástu Möller og hv. þm. Péturs Blöndals í dag mætti ráða að ríkisstjórnarliðarnir hafi barist um á hæl og hnakka undanfarin ár og mánuði við að rétta hlut þeirra sem minnst hafa. Ég vildi bara að það kæmi fram að svo hefur ekki verið. Þeirra vitund hefur fyrst vaknað hér og nú.