Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:37:05 (3789)

2001-01-17 19:37:05# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:37]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Umræðan í dag hefur verið ákaflega fróðleg. Ég hygg að þær rúmlega 7 þús. kr. á hvern einstakling sem rifist hefur verið um verði sennilega einhverjar frægustu 7 þús. kr. í sögunni. Ljóst er að við erum að tala um 40 millj. sem ríkið eigi að láta út þegar búið er að taka tillit til skatta.

Ég fagna hins vegar þeirri yfirlýsingu sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller að hún hafi það að markmiði, og það hafa fleiri stjórnarliðar sagt hér í dag, að bæta skuli kjör þeirra sem verst eru settir. Það er nefnilega svo að stjórnarandstaðan öll hefur tvö sl. fjárlagahaust flutt tillögur um að bæta kjör þeirra sem verst eru settir, bæði öryrkja og aldraðra og líka þeirra sem hafa sjúkradagpeningana eina þegar því er að skipta. Þessar tillögur hafa ævinlega verið kolfelldar. Og það er ánægjuefni að standa uppi með það eftir þessa umræðu að nú ætla ríkisstjórnarflokkarnir að koma til liðs við stjórnarandstöðuna og lagfæra málið.