Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 20:48:52 (3794)

2001-01-17 20:48:52# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[20:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst er örstutt svar. Til hvaða hluta 17. gr. laga nr. 117/1993 vitnaði ég til? Það var 5. mgr. Ég las upp dómsorðið. Þar kom það fram.

Það er enginn sem segir að tekjutenging eða eignatenging í tryggingakerfi eða skattkerfi sé afnumin með þessum dómi. Það er mikill misskilningur ef menn telja svo vera. Mergurinn málsins er sá að niðurstaða Hæstaréttar er að það standist ekki stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga að skerða tekjutryggingu á grundvelli tekna makans. Þessi tekjutenging nemur 32.566 kr. Hv. þm. telur að ríkisstjórnin geti komist upp með að lækka þessa upphæð niður í 25 þús. kr. og það er ekkert sem kemur í veg fyrir að sú upphæð verði innt af hendi ef fyrir því er pólitískur vilji. Nú vil ég beina spurningu til hv. þm.:

Hvers vegna vilja stuðningsmenn ríkisstjórninnar og ríkisstjórnin hafa 7.566 kr. af þessu fólki? Hver er skýringin á þessu? (Forseti hringir.) Ekki getur hún verið peningaleg eða efnahagsleg. (Forseti hringir.) Hver er skýringin?