Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 20:54:33 (3799)

2001-01-17 20:54:33# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[20:54]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. 43 þús. kr. og að þær fullnægi dómi Hæstaréttar og ákvæðum hans um mannréttindi er mat löggjafans sem dómstólar eiga þá síðasta orðið um hvort stenst mannréttindaákvæðin. Nú vill svo til að þingmaðurinn er í þeirri stöðu að hún man ekki fyrri spurninguna frá fyrirspyrjandanum. (JóhS: Það er um framfærsluskyldu öryrkjans.)

Herra forseti. Í dómi Hæstaréttar er kveðið skýrlega á um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna og þar er skýrlega líka tekið fram að þetta sé ekki einungis skylda heldur sé líka um rétt að ræða og þetta virkar auðvitað á báða bóga. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að fyrir 18 þús. kr. leggist réttur öryrkjans fyrir lítið og að sú fjárhæð fái ekki staðist og sá kaleikur sem löggjafinn hefur þá núna er að finna þá fjárhæð sem talin er standast mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. En endanlega orðið um það hvort þessi fjárhæð gerir það hlýtur dómsvaldið að eiga.