Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 20:58:11 (3802)

2001-01-17 20:58:11# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[20:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gengur hér í það verk að verja ríkisstjórn sína og þar á meðal að bera fyrir sig fyrningarreglu og hafa endurgreiðslurnar af þeim hluta öryrkjanna sem skerðingunni sætti á árunum 1994--1997. Það kom merkilegur kafli í framhaldinu um að með því yrðu til peningar sem mætti nota til þess að bæta hag annarra bágstaddra. Það má spyrja: Hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um það? Er búið að eyrnamerkja sérstakar fjárhæðir sem á þá að ráðstafa í eitthvað annað, sem á að verða framlag þessa hóps öryrkja sem ekki eiga að fá það sem af þeim var haft með þessum hætti?

Einnig endurtók hv. þm. þá tuggu hér sem er að verða býsna þreytandi, að stjórnarandstaðan, samtök öryrkja, væntanlega líka fjölmiðlar, hafi verið að vekja óraunhæfar væntingar hjá öðrum en þeim sem þessi dómur fjallaði um án þess að nefna eitt einasta tilvik eða dæmi um að slíkt hefði verið gefið í skyn í ræðum. Enginn stjórnarliðanna sem uppi er með þennan söng hefur nefnt eitt einasta dæmi um að menn hafi hagað máli sínu þannig að ætla mætti að annað fælist í dómnum en þar gerir.