Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:35:58 (3807)

2001-01-17 21:35:58# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. dró í efa álit þeirra lögfræðinga sem ríkisstjórnin kallaði sérstaklega til en vitnaði jafnframt í lagaprófessorinn Sigurð Líndal en hann sagði m.a. í viðtali á Stöð 2 eftir að dómurinn féll, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sigurður segir að þrátt fyrir þennan dóm Hæstaréttar sé í raun ekkert sem útilokið að löggjafinn setji lög sem skerði tekjutryggingu örorkuþega.

Sigurður Líndal: Ef það er gert þannig að það taki jafnt til allra og gert með málefnalegum og réttlátum hætti þá hygg ég að það megi hugsanlega finna flöt á því.``

Síðan vildi ég vitna til annars starfsmanns Háskóla Íslands sem er vísindastofnun okkar á mörgum sviðum vísinda og þar á meðal einnig á sviði lögfræði, en þessi ágæti lektor, Skúli Magnússon, segir:

,,En ég held svona að ef ég tala sem skattgreiðandi þá finnist mér eðlilegt að það sé tekið til ítarlegrar skoðunar hvað eigi að greiða úr ríkissjóði í tilefni af þessum dómi og sem kjósandi að þá finnst mér eðlilegt að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar fái að fjalla um málið áður en slíkt er gert og ég held að það hafi ekki komið til greina að Tryggingastofnun greiði umsvifalaust út greiðslur til öryrkja í framhaldi af dómnum. Ég er sammála því sem fram kemur í skýrslunni að til þess þurfi að koma lagabreyting.``

Ég vildi aðeins benda hv. þm. á að það eru fleiri lögfræðingar sem tala með þessum hætti. Og að halda því fram að ríkisstjórn Íslands sé að fara í einhverja valdabaráttu við Hæstarétt er svo fráleitt að ég undrast þessi orð. Ríkisstjórnin er að gegna skyldum sínum með því að leggja fram lagafrv. og Alþingi er að gegna skyldum samkvæmt stjórnarskrá að fjalla um lög og setja lög í tilefni af þessum dómi.