Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:38:09 (3808)

2001-01-17 21:38:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:38]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að menn séu í valdabaráttu þegar þeir væna Hæstarétt um að vera með pólitík í sínum dómi, að Hæstiréttur sé að fara inn á það svið sem stjórnmálamenn eiga að öllu jöfnu að fjalla um. Það get ég ekki túlkað öðruvísi en svo að menn séu að efast um að Hæstiréttur hafi vald til að fjalla um það sem hann fjallar um. Eða að það sé viðeigandi að hann geri það.

Hæstv. utanrrh. sagði að ég hefði dregið í efa álit þessara lögfræðinga. Ég dró það einungis fram, ég er ekki að segja að þeir séu verri en aðrir lögfræðingar. Það sem ég var að reyna að draga fram er að þeir eru ekki óvilhallir. Þeir starfa ýmist hjá ríkisstjórninni eða eru þekktir fyrir stuðning sinn við ríkisstjórnarflokkana og það er það sem er ótrúverðugt í málinu. Þeir eru ekkert óvilhallir, þeir eru ekkert endilega ómögulegir heldur. Sigurður Líndal, sem ég vitnaði til og var sammála í einu sem hann sagði en kannski ekki því sem hæstv. utanrrh. vitnar til, er heldur ekkert óvilhallur og væntanlega ekki heldur sú sem hér stendur eða nokkur annar lögfræðingur. Menn eru með misjafnar skoðanir, en til þess að ríkisstjórnin sé trúverðug í því sem hún er að gera, hefði hún átt að nefna þarna til að mínu mati óháða og óvilhalla sérfræðinga til þess að fjalla um málið. Það hefði verið mun trúverðugra, ég tala ekki um ef samráð hefði verið haft við forustu Öryrkjabandalagsins þannig að þeir hefðu getað haft lögmann sinn með í því að fara í gegnum málið. En ég hefði talið mjög eðlilegt í ljósi þess að þarna er verið að ræða um málefni sem hóp varðar sem þeir hafa verið talsmenn fyrir og hafi menn einhvern áhuga á því að leysa þennan ágreining endanlega og fá lausn á honum hefði verið hægur vandinn að leita eftir samráði við Öryrkjabandalagið áður en nefndin er sett af stað.