Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:47:01 (3814)

2001-01-17 21:47:01# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:47]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. hafi ekki enn skilið muninn á þessu tvennu eins og ég taldi mig leggja töluvert mikla vinnu í að reyna að útskýra þetta í ræðu minni og kannski þurfum við bara að taka spjall í hliðarherbergi á eftir. Það má vel vera að það sé umdeilanlegt og það sé pólitískt mat hv. þm. Péturs H. Blöndals að sama eigi að gilda um húsaleigubætur. En grundvöllurinn sem Hæstiréttur byggir rökstuðning sinn á er ekki sá sami. Ekki gilda sömu rök um þá grundvallaraðstoð sem maður á rétt á úr opinberum sjóði á grundvelli fötlunar sinnar vegna þess að hann getur ekki aflað sér tekna eða annarra jöfnunaraðgerða sem lög gera ráð fyrir. Þetta rökstyður Hæstiréttur mjög ítarlega í máli sínu. Þetta er grundvallaratriði í lögfræði og ég tel mig a.m.k. hafa reynt að gera mitt ýtrasta til að útskýra muninn á þessu tvennu. Það er alveg fráleitt að draga svo víðtæka ályktun af þessum tiltekna rétti.