Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:50:33 (3816)

2001-01-17 21:50:33# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:50]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel, og það er skoðun mín, að með vísun í þessa gildandi 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, þ.e. í dómsorðinu, sé í raun verið að segja að hún sé ekki gild og niðurstaðan sé því sú að það skuli taka hana út og eftir stendur, miðað við þann ramma sem við höfum í lögum í dag, að 51 þús. kr. skal greiða. Ég tel þetta vera rétta skýringu á dómnum.

Nú má vel vera, herra forseti, að rétt sé að eitthvað megi efast um þetta. Ég skil alveg þá röksemdafærslu. En ég velti hins vegar fyrir mér á móti og spyr hv. þm.: Af hverju er verið að reyna á þolrifin fyrir 7 þús. kr. á mánuði? Af hverju er verið að reyna á þetta? Það er þetta sem ég sagði. Það er pólitískt mat ríkisstjórnarinnar að svara þessum dómi svona meðan henni hefði verið í lófa lagið að túlka hann á hinn veginn og vera þannig örugg um að ágreiningnum á milli Örykjabandalagsins og íslensku ríkisstjórnarinnar, sem er að verða til skammar fyrir hana, verði lokið og ekki verði áframhaldandi málaferli í kjölfarið. Það má vel vera að þetta sé pólitískt mat þó ég sé þeirrar skoðunar að rétt sé að túlka dóminn þannig að það hafi átt að greiða út 51 þús. kr.