Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:52:55 (3818)

2001-01-17 21:52:55# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:52]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að þetta kom fram hjá hv. þm., að þetta er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera. Ríkisstjórnin er í þrætu við Hæstarétt um það hver hafi rétt til þess að kveða á um þetta mat. Ég held að það sé nefnilega nákvæmlega þetta. Það var þetta sem ég átti við þegar ég sagði að hér væri valdabarátta á milli tveggja greina ríkisvaldsins, sem er ekki beinlínis til fyrirmyndar.

Ég ítreka líka að Hæstiréttur dregur sérstaklega fram að þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans til mats á því hvernig þessi lágmarksréttindi skuli ákvörðuð geti dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess hvort það mat samrýmist grundvallarreglu stjórnarskrárinnar. Þeir vísa beint í 5. mgr. 17. gr. og segja að þetta samrýmist ekki stjórnarskrá. Í mínum huga getur það ekki verið skýrara og það er kannski þarna sem pólitíkin er í málinu. Ég er þeirrar skoðunar, og sennilega allir í stjórnarandstöðunni, að ríkisstjórnin hafi átt að lúta þessu dómsorði Hæstaréttar.