Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:14:56 (3824)

2001-01-17 22:14:56# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich fer mikinn um að rétturinn hafi ekki skýrt hver lágmarksréttindi einstaklinganna, sem varin eru af stjórnarskránni, skuli vera. Hv. þm. segir: Hvorki minni hlutinn né meiri hlutinn treystir sér til að setja fram nokkrar skýringar á því. Það vill svo til að það eru aðilar í þjóðfélaginu sem treysta sér til þess. Það er háyfirdómurinn sem skipaður var af ríkisstjórninni, þ.e. fjögurra manna starfshópurinn sem lagði fram skýrsluna sem frv. byggir á. Það vill svo til að þar eru þessi lágmarksréttindi skilgreind. Hver eru þau? Jú, þau eru að öryrki í þessari stöðu eigi að geta treyst því að hafa eigin tekjur, tekjutryggingu og grunnörorkulífeyri, samtals 43 þús. kr. á mánuði. Þar er sem sagt verið að kroppa 8 þús. kr. af þeirri upphæð sem við teljum að Hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu um.

Ég spyr hv. þm. Tómas Inga Olrich: Getur hann skýrt út hvernig starfshópurinn og ríkisstjórnin komst að niðurstöðu um 43 þús. kr.?