Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:16:09 (3825)

2001-01-17 22:16:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:16]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Þessi deila um 43 þús. kr. annars vegar og 51 þús. kr. hins vegar er deila um grundvallaratriði en ekki krónur. Hvers vegna kemst stjórnarandstaðan að þeirri niðurstöðu að þarna eigi að vera 51 þús. kr.? Hver er ástæðan fyrir því? Hún liggur alveg ljós fyrir. Það er vegna þess að þeir telja að í dómnum felist að það sé bannað að skerða tekjutrygginguna vegna tekna maka. Og þess vegna komast þeir að niðurstöðunni 51 þús. kr., til þess liggja ekki aðrar ástæður. Um þetta atriði erum við ósammála og teljum að það sé ekki fólgið í dómnum að sú tala sé heilög vegna þess að það sé heimilt samkvæmt dómnum að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka.