Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:17:09 (3826)

2001-01-17 22:17:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hérna opinberast í reynd ein af grundvallarþverstæðunum í málflutningi stjórnarsinna. Hv. þm. kemur hingað til að svara spurningu sem ég varpa fram og hann svarar henni ekki. Hvers vegna? Vegna þess að hann getur ekki svarað henni. Vegna þess að það eru engar málefnalegar forsendur sem leiða að því að 43 þús. kr. eigi að vera þessi lágmarksréttindi. Hv. þm. viðurkennir að við í stjórnarandstöðunni höfum ákveðin rök fyrir því að leggja fram töluna 51 þús. Hv. þm. skýrði út hver þau rök voru, ég ætla ekki að tefja tímann með því að fara yfir þau.

En það sem mig skorti í rökfærslu stjórnarliðanna er hvernig í ósköpunum finna þeir út töluna 43 þús. kr. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja það. Og á meðan þeir halda því fram að þetta sé byggt á harðsnúinni röksemdafærslu eins og einn orðaði það í dag, þá getur maður ekki annað en komið hingað og spurt hv. þm. Tómas Inga Olrich: Hvernig getur hv. þm. rökstutt töluna 43 þús.? Af hverju eru það lágmarksréttindi sem stjórnarskráin ver að því er þessum starfshópi og ríkisstjórn finnst?