Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:18:20 (3827)

2001-01-17 22:18:20# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:18]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Alls staðar þar sem mál af þessu tagi eru ákveðin, þá liggur að baki þessu pólitískt mat. Og ef hv. þm. skoðar hvernig staðið er að þessum málum í nágrannalöndum okkar, þá liggur að sjálfsögðu fyrir pólitískt mat og þar eru réttindi bara mjög svipuð. En það er ekki úr vegi að hv. þm. spyrji sjálfan sig hvað varðar mat af hálfu dómsins sem að hans mati hefur ákveðið hvert þetta lágmark skuli vera, hvaða mat liggur á bak við það að hafa þetta 51 þús. kr. frekar en 43? Það getur hv. þm. ekki skýrt heldur. Þetta er pólitískt mat og mér finnst í rauninni það alvarlegasta við þessar umræður vera að hv. þm. skýtur sér á bak við Hæstarétt og telur að Hæstiréttur eigi að meta þetta sjálfur, en það er sú skylda sem hvílir á sjálfum þingmanninum að taka pólitíska afstöðu til þess hver þessi upphæð eigi að vera, en skjóta sér ekki á bak við Hæstarétt.