Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:55:56 (3841)

2001-01-17 22:55:56# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég staldra aðeins við það sem fram kom í máli hv. þm. að það væri skoðun hennar að úr 5. mgr. 17. gr. laganna félli síðari málsliðurinn, sá málsliður sem fjallar um skerðingu á tekjutryggingu ef tekjur eru umfram það sem þar er tilgreint, en hitt stæði eftir óhaggað og þess vegna þyrfti ekki að setja nein ný lög því hægt væri að styðjast við málsliðinn eins og hann væri eftir dóminn að mati þingmannsins.

Þessi fyrri málsliður 5. mgr. 17.gr. laganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Nú nýtur aðeins annað hjóna örorkulífeyris og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna eru ekki hærri en 1.086.048 kr. á ári og skal þá greiða tekjutryggingu til viðbótar lífeyri þess að upphæð 356.965 kr. á ári.``

Fjárhæðir hafa breyst eins og fram hefur komið.

Ég staldra aðeins við þetta. Ef það á að framkvæma bara þennan málslið þá þýðir það að þeir sem fram til þessa hafa fengið skerta tekjutryggingu vegna þess að sameiginlegar tekjur hjóna hafa verið yfir tilgreindum mörkum, mundu ekki lengur geta fengið skerta tekjutryggingu af því það væri óheimilt. Ef þessi málsliður stæði og lögin þar með og við þyrftum ekki að setja lög að mati þingmannsins þá erum við að breyta núverandi ástandi eða ástandinu sem var fyrir dóm, yfir í annað ástand sem er öryrkjum lakara sem nemur þeim hópi öryrkja sem fengu skerta tekjutryggingu. (Gripið fram í: Þetta er óskiljanlegt.)