Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:59:34 (3843)

2001-01-17 22:59:34# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrri málsliðurinn segir einfaldlega að séu sameiginlegar tekjur hjóna undir tilgreindum mörkum þá skuli greiða tekjutryggingu til viðbótar. Það þýðir að engin lagaheimild er til að greiða tekjutryggingu ef sameiginlegar tekjur fara yfir tilgreind mörk. Það er seinni málsliðurinn sem veitir þá heimild að greiða skerta tekjutryggingu ef sameiginlegar tekjur fara yfir þessi umræddu mörk.

Ég vil líka vekja athygli á öðru í þessu lið, herra forseti. Þar er fjallað um sameiginlegar tekjur hjóna, þ.e. ef sameiginlegar tekjur hjóna eru undir tilgreindum mörkum. Það þýðir að ef tekjur makans hækka þannig að sameiginlegar tekjur fara yfir mörkin þá fellur tekjutryggingin niður eða skerðist. Í 1. málslið er sem sé ekki vefengt að taka eigi tillit til tekna maka.

Hv. þm. Þuríður Backman sagði: ,,Þessi málsliður stendur.`` Með öðrum orðum viðurkennir þingmaðurinn að þar megi taka tillit til tekna maka. Þar með er fallin algerlega á brott sú staðhæfing að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki megi taka tillit til tekna maka við ákvörðun á tekjutryggingu.