Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 23:02:27 (3845)

2001-01-17 23:02:27# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[23:02]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og skýrt hefur komið fram í valdsmannslegum ræðum hæstv. ráðherra í dag er það ríkisstjórnin sem vill beita valdi sínu og njóta til þess aflsmunar þingmanna sinna sem nú hafa ráðin í hendi sér með drjúgum meiri hluta hér á Alþingi. Þetta er ríkisstjórnin sem fer á skjön við stjórnarskrána eins og ég skil dóm Hæstaréttar. Hún setur af stað sérstaka vinnuhópa til að finna krókaleiðir fram hjá stjórnarskránni og meiri hluta þingmanna á Alþingi er síðan ætlað að gera það að lögum. Á venjulegi máli er gengið á skjön við stjórnarskrána og lýðræðið, þvert á hugmyndir um þrískiptingu valdsins. Þannig lít ég á málið. Ég er eðlilega á öndverðum meiði við stjórnarliða sem telja að réttlætið sé sín megin. Niðurstaða Hæstaréttar sem hæstv. ráðherrum líkar ekki er afgreidd af starfsnefnd úti í bæ og álit nefndarinnar skal verða að lögum.

Það er grundvallarregla að einstaklingur hafi mannréttindi með stjórnarskrárvörðum persónuréttindum, að einstaklingurinn eigi lágmarksrétt óháðan breytilegum tekjum annars einstaklings. Störf Alþingis næstu daga eiga að breyta þeirri niðurstöðu Hæstaréttar sem byggir á stjórnarskránni.

Frjálslyndi flokkurinn mun ekki styðja það með nokkrum hætti að málið gangi svo fram sem frv. mælir fyrir um. Skilningur minn á hæstaréttardómnum frá 19. des. er sá að hver einstaklingur eigi rétt til þess að njóta óskertra lágmarksframfærslutekna og að Hæstiréttur Íslands hafi dæmt öryrkjum þann rétt sem lágmark til framfærslu óháð tekjum maka. Varla verður þó sagt að nokkur sé ofhaldinn af þeirri upphæð, um 51 þús. kr. á mánuði.

Mönnum er það byrði að hafa skerta starfsorku, sama hvernig það er til komið. Það kostar fólk oft mikla fjármuni að búa við örorku. Það liggur því í hlutarins eðli að sá heilbrigði í sambúð eða í hjónabandi þarf að vinna meira og reyna að afla sem mestra tekna því það er dýrt að búa með einstaklingi með skerta starfsorku, einkum ef bætur hans eru svo skornar niður eins og gert var, allt niður í 18 þús. kr. Þetta ættu flestir að vita eða a.m.k. að gera sér ljóst.

Hæstv. heilbr.- og trmh. Ingibjörg Pálmadóttir sagði í ræðu sinni í morgun að sumar fjölskyldur öryrkja væru með meiri tekjur en 200 þús. kr. og jafnvel meiri en 300 þús. kr. Hátekjutölur sem eiga að segja mikið í þessari umræðu og kljúfa samstöðu öryrkja, sem ríkisstjórnin og þingmenn hennar blása út í ömurlegri málsmeðferð sinni við að verja vondan málstað, segja lítið annað en að fjölskyldur öryrkja reyni að afla sér tekna fyrir sérkostnaði samfara því er annar aðilinn býr við mjög skerta möguleika til tekjuöflunar vegna örorku sinnar. Margir hafa búið við það frá 1994 að fá skertar bætur og verið svo til tekjulausir vegna þeirra laga sem Hæstiréttur var að dæma sem ólög. Að sjálfsögðu ætlar ríkisstjórnin ekki að fara að slíkum hæstaréttardómi. Viðbrögð hæstv. forsrh. og utanrrh. eru því miður ekki ný af nálinni.

Hæstiréttur á ekki að kveða upp stefnumarkandi dóma sem núverandi stjórnarherrum líkar ekki. Þá er hann of fáskipaður og lætur ekki vita í hvað stefnir í úrskurði sínum. Við slíkt og þvílíkt er ekki búandi. Muna menn ekki yfirlýsingar út af dómi Hæstaréttar í kvótadómnum í desember, svoköllu Valdimarsmáli, 1998? Til upprifjunar voru viðbrögðin þá í þá veru að jafnvel yrði að breyta stjórnarskránni og vernda þannig áfram forréttindi fárra.

Vonandi hafa menn ekki gleymt ummælum stjórnarherranna í kringum Vatneyrarmálið, þá var jafnvel boðið upp á landflótta og Kanaríeyjatúr, þar sem óbyggilegt yrði hér ef forréttindi sægreifanna yrðu aflögð og þeir sem vildu gera út fiskiskip fengju aðgang að fiskveiðum án þess að greiða okurleigu til sægreifanna. Aðalmál hæstv. ráðherra var enn sem fyrr að vernda samrunaferli þeirra stóru svo auðveldara væri að rífa kvótann undan byggðunum og framfylgja eyðibyggðastefnu sem fylgt hefur frjálsa kvótabraskskerfinu. Enda kom ,,rétt`` niðurstaða úr fjölskipuðum Hæstarétti.

Nú er í þriðja sinn fjallað um niðurstöðu dómstóla. Að sjálfsögðu er settur vel valinn starfshópur í að lagfæra svo vondan dóm Hæstaréttar, líkt og í vonda dómnum haustið 1998. Það þarf að setja lög þegar mönnum sem ráða landinu líka ekki fimm manna dómar. Frv. á að viðhalda því ástandi að hér verði áfram hægt að brjóta mannréttindi sem eru varin í stjórnarskránni. Ég hlýt að spyrja: Erum við búsett í lýðræðisríki með ríkisstjórn sem er fjölskipað vald og þar sem valdið er þrískipt í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald?

Herra forseti. Hæstiréttur dæmdi að Tryggingastofnun ríkisins hefði verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki er maki hans er ekki lífeyrisþegi. Einnig úrskurðaði Hæstiréttur að Tryggingastofnun hafi verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap.

Eðlileg málsmeðferð í kjölfar dómsins hefði þurft að vera sú að í upphafi þessa árs greiddi Tryggingastofnun samkvæmt dómnum út óskertar bætur til öryrkja. Það átti að gera og ekkert annað við þann þátt málsins. Síðan hefði verið eðlilegt að leita sátta og sameiginlegrar niðurstöðu um hversu langt aftur í tímann bætur til öryrkjans skyldu endurreiknaðar.

Að mínu viti gæti þar aðeins tvennt komið til álita: Annaðhvort að greiða að fullu aftur til 1. janúar 1994 eða fjögur ár aftur í tímann frá því að máli er stefnt, þ.e. frá stefnudegi. Annað fær ekki staðist eins og ég sé málið. Þetta er mín skoðun á dómnum. Með slíku samráði, að uppfylltum fullum greiðslum nú, væri málið í eðlilegum farvegi, en ekki keyrt áfram í andstöðu við alla nema stjórnarliða.

Herra forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur forræði og ábyrgð þessa máls. Hún getur ekki vikið sér undan ábyrgð á því. Að færa málið til hæstv. forsrh. og taka síðan við því aftur í þessum búningi sem hér er verið að kokka er gert með hennar samþykki. Undan þeirri ábyrgð kemst fagráðherrann ekki. Eftir umræðuna í dag er mér ljóst að ríkisstjórnin flytur þetta frv. fyrir Alþingi til að fá lagaheimild til skerðingar upp á 7.500 kr. brúttó, fyrir skatta, í hverjum mánuði hjá viðkomandi öryrkjum. Hafi komið fram réttar upplýsingar hér í umræðunni, að um sé að ræða 700 manns, þá væri kostnaðurinn sem fylgir því að fara eftir niðurstöðu Hæstaréttar um greiðslu bóta frá 1. janúar að teknu tilliti til skattgreiðslna um 40 millj. kr. á ársgrundvelli, þ.e. tæpar 40 millj. Að því gefnu að hér séu um 700 manns og ef við notum töluna 8 þús. þá er þetta gróft reiknað þannig. Ögmundur Jónasson nefndi hér töluna 38 millj. og 500 þús. ef ég man rétt. Ég fullyrða ekki að um 700 manns sé að ræða en göngum út frá því.

Stjórnarliðar hafa í ræðum sínum í dag haldið því fram að með þessu muni batna hagur fárra sem jafnvel hefðu það mun betra en aðrir öryrkjar. Þessu hefur verið lýst hér í ræðum, m.a. af hæstv. heilbrrh. í morgun þar sem hún minntist á nefnd sem hún hygðist skipa til að bæta sérstaklega hag þeirra sem verst eru staddir. Fleiri talsmenn stjórnarliða hafa komið inn á þennan þátt málsins.

Nú vill svo til að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa við afgreiðslu fjárlaga undanfarin tvö ár flutt tillögur um að bæta hag örorku- og ellilífeyrisþega og jafnvel ungs fólks sem verður fyrir sjúkdómum og á engan rétt. Þetta hefur verið gert með brtt. við fjárlög. Þessar tillögur, hvort sem þær hafa verið fluttar af okkur í stjórnarandstöðuflokkunum sameiginlega, Frjálslynda flokknum sér, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði eða Samfylkingunni, hafa ævinlega verið kolfelldar. Í umræðunni í dag hefur m.a. komið fram að slíkt frv. liggi fyrir í heilbr.- og trn.

[23:15]

Ef eitthvað er að marka þær yfirlýsingar sem hér hafa komið fram hjá stjórnarliðum þá ber auðvitað að fagna því. Ég er alveg viss um að ekki mun standa á okkur stjórnarandstæðingum að veita stjórnarliðum liðveislu við það að bæta hag þeirra sem verst eru settir. En ef það eiga að vera rökin í þessu máli að þær 40 milljónir sem hér er um að ræða séu peningarnir sem þurfi til að bæta hag þeirra sem verst eru settir þá gef ég lítið fyrir málflutninginn. Þá held ég í raun að ekki sé nokkur einasta meining á bak við það sem stjórnarliðar hafa sagt hér í dag, að þeir vildu raunverulega taka á hag þeirra öryrkja og aldraðra sem verst eru settir og hafa þurft að búa við strípaðar bætur, lágmarksbætur.

Mig langar einnig að víkja að máli ýmissa annarra sem hér hafa talað í dag. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sagði í morgun að málin hefðu ekki verið rædd málefnalega og að hér hefði eingöngu verið um upphrópanir og rangfærslur að ræða. Ég veit ekki til þess að menn hafi verið með neinar rangfærslur í þessu máli. Menn hafa túlkað dóminn eins og þeir hafa skilið hann. Ég hef rætt við lögmenn um þennan dóm sem hafa sagt mér að ekkert væri því til fyrirstöðu að borga út miðað við 1. janúar eftir niðurstöðu dómsins. Hins vegar þyrfti að finna flöt á því hvernig ætti að fara með hlutina aftur í tímann.

Ég vil líka gera athugasemd við annað sem hæstv. forsrh. sagði. Hann sagði eitthvað á þessa leið: ,,Hafa þingmenn einhverja þekkingu á þessu máli, á þessum dómi? Varla er svo.`` Ég held að ég hafi skrifað þetta rétt eftir honum. Ég hygg að við þingmenn séum allir sæmilega læsir og ef við skiljum ekki eitthvað þá getum við reynt að fá skýringar hjá öðrum og beðið um leiðbeiningar. Ekki ætla ég að gefa mig út fyrir að vera lögfræðingur en ég tel mig skilja eðlilegan íslenskan texta. Og eins og ég hef lýst í ræðu minni er skilningur minn sá að ríkisstjórnin hefði átt að gefa strax fyrirskipun um að greiða út samkvæmt dómnum 1. janúar. Síðan hefði átt að leita samkomulags við öryrkja um hvernig ætti að fara með það sem átti að virka aftur í tímann. Ég vil því leyfa mér að mótmæla fullyrðingum hæstv. forsrh. hér í morgun hvað mig varðar.

Hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, vék að því hvort eðlilegt væri að takmarka vald löggjafans. Þegar dómar falla hljóta þeir að takmarka völd okkar og við verðum að una því sem dómstólar, a.m.k. Hæstiréttur kveður upp í málum. Ég hef a.m.k. þá sannfæringu að við getum ekki snúið því á hvolf. Ég ítreka það að skilningur minn á málflutningi stjórnarliða hér í dag er sá að þeir séu fyrst og fremst að fá sér lagaheimild til þess að skerða bæturnar niður í 43 þús. kr. Það er skilningur minn á þessu frv.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði hér að allir lögfræðingar sem hefðu lesið hæstaréttardóminn teldu að hann væri óskýr. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla því. Ég hef talað við tvo sem hafa sagt mér að dómurinn sé ekki óskýr þannig að þessi fullyrðing er bara út í loftið. Það kann hins vegar að vera að allir lögfræðingar sem hv. þm. hefur hitt hafi sagt henni að dómurinn væri óskýr. Það er mjög sennilegt og ég get ekki mótmælt því.

Það voru líka önnur ummæli sem hv. þm. Jónína Bjartmarz viðhafði hér um okkur í stjórnarandstöðunni sem mér finnst eðlilegt að víkja að. Hún sagði: ,,Hvað gengur mönnum til að veikja trú fólksins í landinu á dómstólana í landinu?`` Ég veit ekki til þess að ég hafi með nokkrum hætti verið að veikja trú manna á dómstólum í landinu. Ég hef einmitt sagt að ég teldi að dómurinn stæðist að því leyti að greiða fram í tímann en það þyrfti að leita samkomulags við öryrkja um hvernig ætti að fara með eftirágreiðslurnar.

Ég ætla líka að leyfa mér að mótmæla því að ég hafi í málflutningi mínum vakið fólki einhverjar væntingar, þ.e. öðrum öryrkjum en þeim sem málið snýr að. Ég hef ekkert orðið var við það hjá stjórnarandstæðingum að þeir hafi almennt verið að vekja öryrkjum einhverjar sérstakar væntingar. Ég held að alltaf hafi verið talað um þennan hóp öryrkja sem er í sambúð eða giftur enda snerist málið um þá. Vissulega tekur dómurinn sem slíkur til fárra enda held ég að það hafi verið hæstv. utanrrh. sem nefndi töluna 700 manns í dag. Dómurinn tekur því til fárra. Það þýðir hins vegar ekki að dómurinn skipti ekki marga máli. Dómurinn hlýtur að skipta allt fólk í landinu máli og ekki síst aðra öryrkja en þá sem eru giftir eða í sambúð. Þeir hljóta að horfa til þess hvaða aðstæður þeim eru búnar ef þeir stofna til hjúskapar eða sambúðar.

Þetta vildi ég segja um þetta mál. Skoðun mín er sem sagt sú sem ég hef nú lýst. Ég geri mér alveg grein fyrir því að stjórnarliðar eru á annarri skoðun og eru ekki sammála túlkun minni og ég virði það auðvitað að þeir setja fram sitt mál. En svona lít ég á þessi mál og tel að frv. sem er fram komið sé fyrst og fremst skerðingarfrumvarp og ekkert annað og hafi engan annan tilgang.