Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:37:40 (3867)

2001-01-18 10:37:40# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr: Hver er ástæða þess að vaxtahækkunin tekur gildi áður en fyrir liggja samtímis aðgerðir til mótvægis eins og stofnstyrkir til framkvæmdaraðila leiguíbúða og hækkun húsaleigu og vaxtabóta?

Þessi hækkun tekur ekki gildi varðandi leiguíbúðir að svo stöddu. Ég ritaði stjórn Íbúðalánasjóðs bréf og bað um að þessari vaxtahækkun yrði frestað. Í þessu bréfi segir m.a., með vísan til bráðabirgðaákvæðis IX í húsnæðislögunum:

,,Ekki liggur enn fyrir sú framkvæmdaáætlun sem framlög ríkisins skulu taka mið af í framtíðinni. Þegar hefur verið unnin viðamikil tillögugerð í skýrslu nefndar um leigumarkað og leiguíbúðir. Að mati félagsmálaráðherra er nauðsynlegt að allir þættir tillagnanna komi til framkvæmda samtímis, þ.e. bæði vaxtahækkun og breyting á aðstoð hins opinbera til leigjenda.

Samkvæmt 36. gr. laga nr. 44/1998 ákveður stjórn Íbúðalánasjóðs vexti af lánum til leiguíbúða og skulu þeir vera breytilegir. Með vísan til 3. gr. húsnæðislaga er þess hér með óskað að stjórn Íbúðalánasjóðs geri engar breytingar á vöxtum sem lán til leiguíbúða bera sem veitt hafa verið á árunum 1999 og 2000, þ.e. eftir gildistöku laganna. Hvað snertir ný lán sem ákveðið verður að veita á árinu 2001 er farið fram á það að lán til sveitarfélaga og félagssamtaka vegna leiguíbúða beri ekki hærri vexti en á síðasta ári, þ.e. 3,9%, þar til fyrir liggur ákvörðun um alla þá þætti sem ofangreint bráðabirgðaákvæði IX lýtur að.``

Stjórn Íbúðalánasjóðs ákvað á fundi sínum að verða við þessari beiðni minni.

Önnur spurning: Mun ráðherra beita sér fyrir aðgerðum sem tryggi að greiðslubyrði láglaunahópa aukist ekki við vaxtahækkun á viðbótarlánum og lánum vegna leiguíbúða?

Ég hef beitt mér vegna leiguíbúðanna. Því miður hefur vaxtastig í landinu hækkað.

Þriðja spurningin: Munu sveitarfélög og félagasamtök sem fengið höfðu lánsloforð á árunum 1999 og 2000 til byggingar leiguíbúða með 3,2% vöxtum og 3,9% vöxtum þurfa að sæta vaxtahækkun á þeim lánsloforðum í 4,9?

Lán til leiguíbúða í ár munu bera 3,9% vexti þar til samkomulag hefur tekist, eins og ég sagði, um hækkun húsaleigubóta, stofnstyrkja eða skattfrelsi húsaleigubóta. Vextir á eldri lánum til leiguíbúða munu ekki breytast.

Fjórða spurning: Telur ráðherra eðlilegt að sérstök vaxtakjör ætluð láglaunahópum séu hærri en vextir á húsbréfum og munu þeir lántakendur viðbótarlána sem fengið höfðu vilyrði fyrir viðbótarlánum fyrir áramótin en ekki skuldabréf vegna þeirra þurfa að sæta vaxtahækkun í 5,7%?

Það er ekki rétt sem staðhæft er hér að hinir raunverulegu vextir af viðbótarlánunum sem eru peningalán séu hærri en á húsbréfum. Afföll af húsbréfum eru því miður um 10%. Það er of mikið. En ef þessum afföllum er dreift á lánstímann þá svarar það til þess að það séu um 6% vextir af húsbréfum þannig að þeir eru aðeins lægri af viðbótarlánunum. Ég vek athygli á því að þau lánakjör sem Íbúðalánasjóður verður að búa við til að geta fjármagnað sig eru slík að ekki er unnt að hafa þessa vexti lægri.

Fimmta spurning: Lítur ráðherra svo á að neyðarástand ríki í húsnæðismálum láglaunafólks með tilliti til langra biðlista eftir leiguíbúðum og mikils húsnæðiskostnaðar?

Biðlistar eftir leiguhúsnæði eru of langir. Það er hins vegar ekki eðlilegt að leggja saman alla biðlista sem finnast í landinu því að margir eru á fleiri en einum biðlista. Það er athyglisvert að í Hafnarfirði eru ekki nema 18 á biðlista á meðan 500--600 eru hjá Félagsbústöðum. Það er hlutverk sveitarfélaga en ekki ríkis að skaffa tekjulágum leiguíbúðir og vitna ég þar til sveitarstjórnarlaga. Öllum lánsumsóknum um leiguíbúðir sveitarfélaga frá námsmönnum og Öryrkjabandalaginu hefur verið svarað jákvætt og flestöllum frá Búmönnum og Búseta. Á árunum 1999, 2000 og 2001 verður lánað út á 1.100 íbúðir með 3,2 eða 3,9% vöxtum, samtals 7,5 milljarðar, (Forseti hringir.) og 237 með 1% vöxtum.