Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:47:53 (3870)

2001-01-18 10:47:53# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í umræðu um málefni öryrkja í gær kom fram í máli stjórnarliða að þeir vildu koma að því að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Telja menn nú að hækkun vaxta á láglaunahópa sé í þá átt að bæta hag þeirra sem verst eru settir? Lítur hæstv. félmrh. svo á að vaxtahækkun á lágtekjufólk sé réttlætanlegt og nauðsynlegt skref í því að jafna kjör fólks sem er ekki of haldið af kjörum sínum? Hækkun vaxta á lánum til leiguíbúða um 4% munu að öllum líkindum hækka húsaleigugreiðslur fyrir 80 fermetra íbúð um 20 þús. kr. á mánuði. Varla er það skref í þá átt að bæta kjör þeirra sem hafa ekki miklar tekjur fyrir.

Hvernig ætlar hæstv. félmrh. að taka á þeim vanda sem vaxtahækkun hlýtur að valda láglaunafólki á næstu mánuðum eða telur hæstv. félmrh. að sveitarfélögin séu svo vel fjáð almennt að vandinn verði leystur af þeim?