Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:59:33 (3876)

2001-01-18 10:59:33# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Út af fyrir sig er fagnaðarefni að hæstv. ráðherra er á harðahlaupum undan eigin aðgerðum og frestar í bili vaxtahækkun á leiguíbúðum. Það er athyglisvert að enginn framsóknarmaður treystir sér til að verja þær aðgerðir sem ráðherrann er að fara að grípa til og hefur gripið til á umliðnum missirum. Það er alveg ljóst að einungis er um gálgafrest að ræða vegna þess að þetta skilur áfram eftir það ástand sem við búum við í miklu uppnámi og óvissu en það ástand er auðvitað fullkomlega óþolandi og það ástand sem er yfir höfuð á húsnæðismarkaðnum. Þó að þessari vaxtahækkun sé frestað eru vextir á leiguíbúðum enn 3,9% og vöxtum á viðbótarlánunum á ekki að fresta sem verða 5,7%. Mér skilst að þeir sem hafi fengið lánsloforð fyrir áramótin en ekki hafa fengin útgefin skuldabréf muni sæta þessari vaxtahækkun og það er óviðunandi, herra forseti. Það er alveg ljóst að bótakerfið sem við búum við, bæði vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið, er sprungið. Fólk mun þurfa að bera þessa vaxtahækkun óbætta, taka þetta sem raunhækkun bæði á vöxtum og leigu nema ráðherrann beiti sér fyrir verulegri breytingu á húsaleigubótakerfinu og vaxtabótakerfinu. Þetta eru staðreyndir sem blasa við og mér óar við því, herra forseti, hve hæstv. ráðherra gerir lítið úr því neyðarástandi sem við blasir. Það eru 440 manns hjá Öryrkjabandalaginu sem bíða eftir húsnæðisaðstoð og bætast við 100 á hverju einasta ári. Það eru 400 hjá námsmönnum og það eru 600 hjá Reykjavíkurborg og ráðherrann klifar á tölunni 18 í Hafnarfirði. Auðvitað er skömm að þessu og til skammar hvernig ríkisstjórnin hefur tekið á húsnæðismálunum og leikið húsnæðiskerfið á þeim fimm árum sem Framsfl. hefur farið með húsnæðismálin.

En ég ítreka það, herra forseti, að hér er einungis um gálgafrest að ræða og óvissuástandið heldur áfram.