Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:01:48 (3877)

2001-01-18 11:01:48# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Frítekjumarkið var hækkað úr 1.600 þús. í 2 millj. Hámark bótanna fór úr 25 upp í 35 þús., efri mörk leigutillits hækka úr 45 upp í 50 þús. Það fóru 4 milljarðar í fyrra í húsaleigubætur og þeir sem fengu viðbótarlán fengu samtímagreiddar vaxtabætur.

Það verður auðvitað jafnaðarverð á leigu hjá hverju leigufélagi. Félagsbústaðir leigja á jafnaðarverði hvort sem lánið er á 1% eða 3,9% vöxtum eða hvort félagið á íbúðina skuldlausa. Sama gildir að sjálfsögðu um námsmannafélög, Öryrkjabandalagið o.s.frv. Að vísu er þetta óþægilegt fyrir ný félög sem verða að bera hærri vexti en við skulum líka taka með í reikninginn að á móti koma húsaleigubætur.

Félagsleg aðstoð er ekki slegin af. Það eru sveitarfélögin sem eiga að skaffa leiguhúsnæði, ekki ríkisstjórnin. Ef félagsmálastjórinn í Reykjavík er óánægð með ástandið ætti hún að beita sér fyrir meiri leiguíbúðakaupum eða byggingu fleiri leiguíbúða í borginni. Hækkun íbúðarverðs stafar af fólksflutningum til landsins en ekki breytingum á húsnæðiskerfinu.

Vaxtastigið í landinu er of hátt, segja menn. Fyrst skammast hv. þm. Ögmundur Jónasson yfir vaxtahækkun en síðan yfir því að vaxtahækkunin komi ekki til framkvæmda.

Ég ætla ekki að gera Íbúðalánasjóð gjaldþrota. Byggingarsjóður verkamanna varð ekki einasta gjaldþrota heldur át hann upp allar eignir Byggingarsjóðs ríkisins. Það er stórbætt innheimta hjá Íbúðalánasjóði þannig og það ber ekki vott um að menn eigi í vandræðum með að standa undir þeim lánum sem þeir hafa tekið.